Árið 1974 var Bandaríkjamaðurinn Herman Wallace sakfelldur fyrir morð. Hann hefur setið í einangrun undanfarin 40 ár. Í dag ógildi dómari í Louisiana dóminn og sagði hann andstæðan stjórnarskránni. Wallace, sem er 71 árs, greindist nýverið með krabbamein í lifur og á aðeins nokkrar vikur eftir ólifaðar.
Wallace var upphaflega fangelsaður fyrir búðarhnupl en síðan fundinn sekur ásamt tveimur öðrum mönnum um að hafa myrt fangavörð árið 1972. Þremenningarnir hafa allir haldið fram sakleysi sínu alla tíð. Einum þeirra, Robert King, var sleppt úr fangelsi árið 2001.
Wallace og hinn maðurinn, Albert Woodfox, hafa hinsvegar setið inni í pínulitlum einangrunarklefum í 40 ár. Þeim er aðeins hleypt út í eina klukkustund á hverjum degi til að stunda hreyfingu og fara í sturtu.
Í áraraðir hefur verið deilt um mál þremenninganna og því haldið fram að þeir hafi verið dæmdir saklausir. Louisiana fangelsið, þar sem þeir hafa eytt ævinni, gengur undir nafninu Angola þar um slóðir, eftir plantekru sem áður var þar sem fangelsið var reist. Á Angola plantekrunni unni þrælar sem rænt hafði verið frá Afríku.
Dómarinn Brian Jackson komst í dag að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn stjórnarskrárvörðum rétti Wallace til sanngjarnrar málsmeðferðar. Rökin eru m.a. þau að konur hafi verið útilokaðar úr kviðdómnum sem kvað upp dóminn.
„Gögnin sýna svo ekki verður um villst að kviðdómurinn var ekki valinn með réttum hætti í máli Wallace og að þegar dómsmálayfirvöld í Louisiana fengu tækifæri til að leiðrétta þau mistök, þá brugðust þau skyldum sínum,“ sagði dómarinn.
Mannréttindasamtökin Amnesty International sendu frá sér yfirlýsingu í kjölfarið þar sem sagði að mál Herman Wallace sé sorglegt dæmi um það þegar „réttlætið“ fer út af sporinu í Bandaríkjunum.
„Loksins kom að því að dómstóll viðurkenndi óréttinn sem hann var beittur. Því miður kemur það þó of seint til að hann njóti góðs af því, þar sem hann er nú við dauðans dyr vegna krabbameins.“