Það er margt sem bjátar á í bandarísku efnahagslífi þessi dægrin. Ekki sér fyrir endann á lokunum sem staðið hafa í 3 daga, sama hvað Barack Obama æsir sig. Á sama tíma vara fjármálaráðuneytið og AGS við þeim „hamförum“ sem orðið geti verði skuldaþak ríkissjóðs ekki hækkað á næstunni.
Obama fordæmdi repúblikana í dag fyrir að standa fyrir óábyrgum farsa með því að halda til streitu kröfum sínum um skilyrði fyrir fjárlagafrumvarpinu. Hann sagði að John A. Boehner, forseta fulltrúadeildar þingsins, væri í sjálfsvald sett að höggva á hnútinn á aðeins fimm mínútum.
Þriðji dagur lokanna ríkisstofnanna er nú senn á enda og ekki útlit fyrir að starfsemi hefjist að nýju fyrir helgi. Áætlað er að lokanirnar kosti ríkissjóð um 300 milljónir dala á dag.
Áhrifin af lokuninni eru þó kannski ekki eins víðtæk og halda mætti. Um 800.000 af 3,3 milljónum manna sem vinna fyrir bandaríska alríkið hafa verið beðnir um að mæta ekki í vinnuna en grunnstoðir kerfisins eru enn á sínum stað, a.m.k. í bili.
Öllu verri eru hugsanlegar afleiðingar af því ef ekki næst samkomulag um að hækka skuldaþak ríkisins, eins og til stendur um miðjan október.
Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sagði í dag að verði skuldaþakið ekki hækkað muni það setja af stað mun alvarlegri keðjuverkun fyrir hagkerfi heimsins heldur en lokunin sem nú stendur yfir.
Það þýðir í sem stystu máli að ríkissjóður Bandaríkjanna tæmist um miðjan næsta mánuð.
Lagarde sagði að Bandaríkjastjórn verði að koma skikki á efnahagsmálin til langs tíma. Hún sagði það lykilatriði að samkomulag náist um hærra skuldaþak.
Fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna var á svipuðum slóðum í dag og varaði við því að ef til hugsanlegs greiðslufalls kæmi af hálfu ríkissjóðs Bandaríkjanna gæti það haft skelfilegar afleiðingar í för með sér.
Í skýrslu sem fjármálaráðuneytið sendi frá sér í dag segir að áhrifin af þessu gætu varað út líftíma heillar kynslóðar og lengur.
Obama tók undir í annarri ræðu sem hann hélt í dag. Hann sagði að jafnvel þótt lokanirnar af hálfu ríkisins nú séu óábyrgar og margir verði fyrir skaða vegna þeirra, þá sé það hjóm eitt miðað við þær alvarlegu afleiðingar sem lokanir vegna greiðslufalls gætu haft.