Óttast um fjárhagslega framtíð sína

Starfsmenn bandaríska ríkisins, sem hafa verið sendir heim í launalaust leyfi vegna deilunnar um fjárlög bandaríska ríkisins, óttast um fjárhagslega framtíð sína.

AFP fréttastofan ræddi við tvær fjölskyldur sem óttast um hvað verði um reikningana þegar engin laun verða lögð inn á reikninga þeirra um næstu mánaðamót. Eiga þær á hættu að missa hús sín á uppboði ef ekki semst fljótlega um fjárlögin.

Á milli 700 og 800 þúsund Bandaríkjamenn vinna hjá bandaríska ríkinu og er meirihluti þeirra nú án launa.

Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, hefur hætt við ferð til Asíu þar sem hann ætlaði að taka þátt í ráðstefnum bæði í Indónesíu og Malasíu. Ekkert miðar í samkomulagsátt hvað varðar fjárlagafrumvarpið en meirihluti repúblikana í fulltrúadeild bandaríska þingsins samþykkti snemma á sunnudag frumvarp þar sem dregið var úr fjárframlögum til Obamacare sem er ný löggjöf um sjúkratryggingar, og skattur á lækningatæki afnuminn. Öldungadeild bandaríkjaþings hafnaði síðan frumvarpinu.

Bandarísk yfirvöld standa frammi fyrir enn stærra vandamáli - ríkiskassinn er að tæmast og mun ekki geta greitt skuldir sínar ef ekki tekst að hækka lánsfjárheimildir ríkisins síðar í mánuðinum.

Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, segir að ef ekki tekst að hækka skuldaþak bandaríska ríkisins standi heimurinn fyrir mun stærra vandamáli heldur en lokun ríkisstofnana.

En á sama tíma hefur bandaríska þjóðin enn meiri áhyggjur af því hver áhrifin af lokun ríkisfyrirtækja hefur á þeirra eigin hag.

Til að mynda voru var alvarlegt umferðarslys í Tennessee í gær en átta létust og 14 slösuðust. Ekki var hægt að rannsaka orsakir slyssins þar sem starfsmenn Samgöngustofu voru sendir heim í launalaust leyfi fyrr í vikunni.

Ekki verða birtar upplýsingar um atvinnuleysi í Bandaríkjunum í september í dag líkt og til stóð þar sem engir starfsmenn eru í vinnunni hjá Vinnumálastofnun. Þessara talna er alltaf beðið með mikilli eftirvæntingu þar sem segja til um hver staðan er í hagkerfi Bandaríkjanna, stærsta hagkerfi heims.

Hitabeltisstormurinn Karen fer nú um ríki við Mexíkóflóa en ef íbúar þar ætla að afla sér upplýsinga á vef hafrannsóknarstofnunarinnar National Oceanic and Atmospheric Administration, NOAA, koma upp skilaboð um að vefurinn liggi niðri vegna verkstöðvunar og beina lesendum á vef Veðurstofu Bandaríkjanna. Aftur á móti hafa starfsmenn almannavarna verið kallaðir út vegna væntanlegs óveðurs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert