Sérsveitir Bandaríkjahers eru sagðar hafa skotið til bana einn af æðstu mönnum íslömsku hryðjuverkahreyfingarinnar al-Shabab í Sómalíu í kvöld.
Fram kemur á vef New York Times að bandarískir hermenn hafi gert áhlaup á heimili mannsins við sjávarþorpið Baraaw í Sómalíu.
Tilefnið er hryðjuverkaárásin í verslunarmiðstöðinni í Naíróbí þar sem minnst 67 voru drepnir. Al-Shabab samtökin lýstu ábyrgðinni á hendur sér og hótuðu því að fjöldamorðin væru bara byrjunin.
Bandaríska alríkislögreglan, FBI, sendi tugi manna til Keníu eftir árásina til að aðstoða þarlend stjórnvöld við rannsókn málsins. Bandarísk stjórnvöld óttast að Shabab geti gert sambærilega árás í Bandaríkjunum.
Sómalinn sem var felldur hefur ekki verið nafngreindur en hann er sagður hátt settur. Til skotbardaga mun hafa komið milli bandarísku hermannanna og vopnaðra varða við húsið.
New York Times segir að aðgerðir sem þessar séu fátíðar af hálfu Bandaríkjahers enda séu þær mjög áhættusamar. Það bendi til þess að maðurinn sem þeir felldu í dag hafi verið talinn mjög mikilvægt skotmark. Haft er eftir ónefndum starfsmanni hersins að árásin hafi verið skipulögð fyrir viku.
Baraawe er lítill hafnarbær suður af Mogadishu, höfuðborg Sómalíu, og mun vera meðal helstu víga al-Shabab samtakanna.