Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, biðlaði til fulltrúadeildarinnar á Bandaríkjaþingi að „stöðva farsann“ og binda enda á lokun ríkisstofnana með því að samþykkja fjárlög ríkisins fyrir næsta ár.
Greiðið þessu atkvæði, stöðvið farsann. Bindið enda á þessar lokanir strax,“ sagði Obama í vikulegu útvarps- og sjóvarpsávarpi sínu í morgun.
Nánast öllum ríkisstofnunum var lokað fyrr í vikunni í Bandaríkjunum eftir að þinginu tókst ekki að koma sér saman um afgreiðslu fjárlaga.
Obama segir að öldungadeildin hafi þegar samþykkt fjárlögin og það séu nægjanlega margir repúblikanar og demókratar í fulltrúadeildinni sem séu á sama máli og vilji binda endi á lokanirnar strax. En íhaldssamasti armur Repúblikanaflokksins komi í veg fyrir að atkvæðagreiðslan fari fram.
Hann segir að ekki komi til greina að greiða lausnargjald svo hægt sé að opna ríkisstofnanir á ný og vísar þar til ákvörðunar repúblikana í fulltrúadeildinni að tengja fjárlögin við sjúkratryggingalögin. „Og ég mun svo sannarlega ekki greiða lausnargjald í ski8ptum fyrir hækkun á skuldaþakinu,“ segir Obama. Bandaríska ríkið mun ná skuldaþakinu þann 17. október og ef þingið samþykkir ekki að hækka skuldaþakið mun ríkissjóður lenda í vandræðum með að greiða af skuldum sínum.