Dánardómstjóri sem úrskurðaði að Ariel Castro hefði framið sjálfsvíg segir að ekkert bendi til þess að hann hafi kyrkt sig í kynferðislegum tilgangi. Í gærkvöldi kom fram í skýrslu frá fangelsinu að ekki væri öruggt að Castro hefði framið sjálfsvíg.
Í skýrslunni kemur fram að hann hafi fundist með buxurnar á hælunum í klefa sínum og ýjað að hann hafi reynt að fá úr því kynferðislega spennu að þrengja að hálsi sínum á meðan hann stundaði sjálfsfróun. Castro hafi vafið laki um háls sér og notaði krækju við glugga til að þrengja að hálsi sínum.
Castro var í ágúst fundinn sekur um að hafa rænt Michelle Knigth, Amöndu Berry og Ginu DeJesus þegar þær voru 20, 16 og 14 ára og haldið þeim föngnum. Castro var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir brot sín en hann samdi við saksóknara um að lýsa yfir sekt gegn því að ekki yrði farið fram á dauðarefsingu. Hann fannst síðan látinn í klefa sínum í byrjun september.
Dánardómstjórinn Jan Gorniak segir að það hafi ekki verið nein merki um að Catro hafi verið kynferðislega örvaður skömmu fyrir andlátið. „Þess vegna sagði ég að þetta hafi verið sjálfsvíg með hengingu.“ segir hún í yfirlýsingu til fjölmiðla.
Missti buxurnar við henginguna
Á vef breska ríkisútvarpsins kemur fram að hún telji að Castro hafi misst buxur og nærbrók niður á hælanna er hann hengdi sig og ekki væru neinar sannanir um að hann hafi reynt að fá úr því kynferðislega spennu með því að binda lakið um hálsinn. Að sögn Gorniak var ekkert samband haft við hana af hálfu fangelsismálayfirvalda við gerð skýrslunnar um hver dánarorsökin hafi verið.
Í skýrslunni kemur einnig fram að fangaverðir hafi falsað skýrslur um að þeir hafi fylgst með Ariel Castro skömmu áður en hann framdi sjálfsvíg. Samkvæmt myndum úr öryggismyndavélum sést að þeir slepptu því að líta með honum í að minnsta átta skipti þennan dag en fylgjast átti með honum á hálftíma fresti.
Neituðu honum um ráðgjöf
Castro var tekinn af sjálfsvígsvöktunarlista í júní þar sem fangelsisyfirvöld töldu ekki líklegt að hann myndi fremja sjálfsvíg. Lögfræðingur Castros, Craig Waintraub, greindi fréttamönnum frá því í síðasta mánuði að Castro hefði verið synjað um að fá utanaðkomandi ráðgjöf þrátt fyrir að hafa ítrekað verið í sjálfsvígshugleiðingum og hann hafi þjáðst af þunglyndi eftir að dómur var kveðinn upp í máli hans.