Hafnar tillögu fulltrúadeildarinnar

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur hafnað tillögu fulltrúadeildar Bandaríkjaþings sem fól í sér framlengingu á skuldaþaki og opnun ríkisstofnana sem lokað var um mánaðamótin.

Talsmaður Hvíta hússins segir tillögu fulltrúadeildarinnar lagða fram til að friða lítinn hóp íhaldsmanna. Hvíta húsið lýsti hins vegar yfir stuðningi við tillögu öldungadeildarinnar.

Demókratar eru með meirihluta í öldungadeildinni, en repúblikanar eru í meirihluta í fulltrúadeildinni. Flokkarnir hafa ekki getað komið sér saman um fjárlagatillögur sem leiddi til þess að nokkrar ríkisstofnanir lokuðu um síðustu mánaðamót. 17. október rennur út heimild þingsins til að auka skuldir ríkisins og óttast margir að ástandið verði enn alvarlegra ef ekki verður komið samkomulag fyrir þann tíma. Í bæði tillögu fulltrú- og öldungadeildarinnar er gert ráð fyrir að frestað verði fram í janúar að taka ákvörðun um hækkun á skuldaþakinu, en það myndi gefa flokkunum meiri tíma til að komast að samkomulagi.

Eitt af því sem flokkarnir hafa helst deilt um eru aðgerðir Obama í heilbrigðismálum, sem kallaðar eru Obamacare. Repúblikanar leggja áherslu á að til að lækka útgjöld ríkisins verði að fresta gildistöku löggjafarinnar.

Tillaga öldungadeildarinnar gerir ráð fyrir að fresta í tvö ár gildistöku tryggingagjalds sem ætlað er að fjármagna breytingar í heilbrigðismálum. Tillaga fulltrúadeildarinnar gerir hins vegar ráð fyrir að einnig verði frestað gildistöku skatts sem ætlað er að fjármagna niðurgreiðslur á heilbrigðisþjónustu. Á þessa tillögu getur Obama ekki fallist.

Áfram er pattstaða í deilum stjórnmálamanna í Bandaríkjunum um fjárlög. …
Áfram er pattstaða í deilum stjórnmálamanna í Bandaríkjunum um fjárlög. Barack Obama fellst ekki á tillögur fulltrúadeildarinnar. SAUL LOEB
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert