Svo virðist sem stutt sé í að samkomulag náist um hækkun skuldaþaks bandaríska ríkisins. Vonir standa til að hægt verði að ganga frá samkomulaginu í dag en að öðrum kosti vofir yfir að ríkissjóður geti ekki staðið við afborganir þann 17. október.
Leiðtogar repúblikana, Mitch McConnell, og demókrata, Harry Reid, í öldungadeild Bandaríkjaþings funduðu í gær og fundi loknum sagðist Reid vera bjartsýnn á að samkomulag væri að nást.
Hlutabréfavísitölur hækkuðu í kjölfarið á Wall Street í gærkvöldi og eins hækkuðu hlutabréfavísitölur í Asíu vegna vona um samkomulag í Washington í dag.
„Það verða allir að sýna þolinmæði,“ sagði Reid í gærkvöldi og bætti við að hann vonaðist til þess að dagurinn í dag yrði bjartur dagur. Undir það tók McConnell sem segist vera bjartsýnn á að samkomulag náist sem báðir aðilar geta sætt sig við.