Ný ríkisstjórn tekur við völdum í Noregi

Leiðtogar nýju ríkisstjórnarinnar, Erna Solberg, forsætisráðherra og Siv Jensen, fjármálaráðherra.
Leiðtogar nýju ríkisstjórnarinnar, Erna Solberg, forsætisráðherra og Siv Jensen, fjármálaráðherra. HEIKO JUNGE

Erna Solberg, leiðtogi Hægriflokksins í Noregi, hefur tilkynnt hverjir verða ráðherrar í ríkisstjórninni sem tekur við völdum í dag. Í ríkisstjórninni eru átján ráðherrar, þar af ellefu úr Hægriflokknum og sjö úr Framfaraflokknum. Kynjahlutfall er jafnt.

Nýja ríkisstjórnin er minnihlutastjórn Hægriflokksins og Framfaraflokksins, en hún nýtur stuðnings Miðflokksins og Kristilega þjóðarflokksins. Þetta er í fyrsta skipti sem Framfaraflokkurinn sest í ríkisstjórn í Noregi.

Siv Jensen, leiðtogi Framfaraflokksins, verður fjármálaráðherra. Børge Brende verður utanríkisráðherra. Elisabeth Aspaker verður sjávarútvegsráðherra, en hún er kennaramenntuð og starfaði við kennslu áður en hún var kjörin á norska Stórþingið sem þingmaður Troms í Norður-Noregi árið 2005.

Anders Anundsen, þingmaður Framfaraflokksins, verður dómsmálaráðherra. Framfaraflokkurinn fær einnig í sinn hlut ráðuneyti barna- og jafnréttismála, samgöngumála, olíu- og orkumála, atvinnu- og félagsmála og landbúnaðarmála.

Jens Stoltenberg segir af sér

Ríkisstjórnarskiptin fara fram í dag, en þá fer ríkisstjórn Jens Stoltenbergs frá völdum, en ríkisstjórn Ernu Solberg tekur við. Stoltenberg hefur verið forsætisráðherra frá árinu 2005.

Erna Solberg er 52 ára gömul, fædd í Björgvin, en ólst upp í nágrannabænum Kalfaret. Hún er með háskólapróf í stjórnmálafræði og hagfræði. Hún var kjörin á þing árið 1989 og varð leiðtogi Hægriflokksins 2004. Hún er gift og á tvö börn.

Ráðherralisti nýrrar ríkisstjórnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert