Margir myndu telja Alireza M. vera afar heppinn mann. Hann var dæmdur til dauða fyrir írönskum dómstólum fyrir að hafa verið handtekinn með kíló af metamfetamíni í fórum sínum. Þann 9. október var snara fest um háls hans og hann hengdur fyrir utan fangelsið. Eftir að hafa hangið í 12 mínútur var hann tekinn niður og læknir úrskurðaði hann látinn. Farið var með lík hans til geymslu yfir nóttina, en næsta dag tók starfsmaður fangelsisins eftir því að ekki var allt með felldu. Móða hafði myndast á plasti sem vafið hafði verið utan um líkama hans. Við skoðun kom í ljós að hann var á lífi og var hann færður á sjúkrahús þar sem hann rankaði við sér.
Fjölskylda mannsins óskaði eftir því að hann yrði náðaður og að refsingu hans yrði breytt, en dómarinn sem dæmdi í málinu stendur fast á sínu og segir að ný aftaka skuli eiga sér stað bráðlega. Amnesty International hefur tjáð sig um málið, en samtökin segja það ómannúðlegt fyrir manneskju sem hefur lifað af eigin aftöku að þurfa að endurtaka hana. Lögin í Íran eru á þann veg að hver sá sem gripinn er með meira en 30 grömm af ólöglegum fíkniefnum á hættu á því að vera dæmdur til dauða.
Sjá frétt CNN um málið