Ljóshærð ung stúlka, sem talin er vera fjögurra ára gömul, var tekin af tveimur fullorðnum einstaklingum í Grikklandi nýlega eftir að DNA-rannsókn leiddi í ljós að þau eru ekki foreldrar hennar. Stúlkan fannst hjá fólkinu í búðum róma-fólksins í Grikklandi og er nú unnið að því að finna foreldra stúlkunnar.
Stúlkan fannst þegar lögregla gerði áhlaup á búðir fólksins síðastliðinn miðvikudag. Lögregla sá ástæðu til að setja af stað DNA-rannsókn vegna þess að stúlkan líktist alls ekki fólkinu sem sagðist vera foreldrar hennar.
Stúlkan, sem er sögð vera fædd árið 2009, er hvít á hörund með blá augu og ljóst hár. Hún er rúmur metri á hæð og um 17 kg. Talið er að stúlkan sé frá norður eða austurhluta Evrópu.
Fólkið sem sagðist vera foreldrar hennar eru 39 ára maður og 40 ára gömul kona og hafa þau bæði verið handtekin. Þau segjast eiga fjórtán börn.
Frétt Sky-fréttastofunnar.