Hann var þögull og kurteis sem drengur. Síðar varð hann reiður og öfgafullur. Hassan Abdi Dhuhulow, Norðmaðurinn sem sagður er hafa tekið þátt í hryðjuverkaárásinni í Naíróbí, ólst upp í smábæ í Noregi. Hann fann sig aldrei í landinu og flutti árið 2010 til Sómalíu, þar sem hann fæddist.
Tengsl Norðmannsins við blóðbaðið í Wesgate-verslunarmiðstöðinni í Naíróbí fyrir fjórum vikum, hafa beint kastljósinu á það stóra samfélag Sómala sem býr í Skandinavíu. Í frétt AFP-fréttastofunnar kemur fram að úr þeim hópi hafi komið nokkrir uppreisnarmenn á síðustu árum.
Dhuhulow er 23 ára. Hann flutti til Noregs ásamt fjölskyldu sinni frá Sómalíu árið 1999 og bjó í smábænum Larvik. Hann er fyrsti hryðjuverkamaðurinn sem þátt tók í árásinni sem er nafngreindur af yfirvöldum í Kenía.
Á upptökum úr eftirlitsmyndavélum úr verslunarmiðstöðinni má sjá Dhuhulow í félagi við þrjá aðra menn skjóta fólk með köldu blóði er þeir ruddust um gangana. 67 manns féllu í árás þeirra. 23 er enn saknað.
Systir Dhuhulow er 26 ára og býr enn í Larvik. Hún segist eiga bágt með að trúa því að bróðir hennar hafi tekið þátt í árásinni. „Ég vil ekki trúa þessu. Ég trúi ekki að þetta sé hann. Þetta lítur ekki út fyrir að vera hann. Þetta er ekki hann,“ sagði hún í samtali við AP-fréttastofuna.
Hún segir að bróðir sinn hafi farið til Mógadisjú, höfuðborgar Sómalíu, í þriggja mánaða heimsókn árið 2009 og ári síðar hafi hann flutt þangað.
Hann hafði verið að læra viðskiptafræði í Noregi og systir hans segir að hann hafi ætlað að halda áfram námi í Mógadisjú.
„Samband okkar var eins gott og hægt er að hugsa sér. Hann var indæll og kærleiksríkur,“ segir hún og kannast ekki við að hann hafi orðið öfgafullur á síðustu árum. „Slíkt sá ég aldrei.“
Mohamed Hassan, leiðtogi Sómala í Larvik segir að Dhuhulow hafi verið kurteis við eldra fólk er hann var barn og unglingur.
„Hann var þögull, indæll drengur þegar hann bjó hér. Ég sá hann aldrei rífast við aðra. Hann kom sér ekki í nein vandræði hér í Larvik.“
Aðrir eiga þó aðrar minningar um hann.
Bashe Musse, leiðtogi Sómala í Ósló, segir að Dhuhulow hafi orðið sífellt öfgafyllri síðustu árin sem hann bjó í Noregi. Annar Sómali í Ósló, sem ekki vill láta nafns síns getið, segir að Dhuhulow hafi verið í hópi öfgafullra Sómala í borginni.
„Hann var brjálaður. Honum fannst hann ekki eiga heima hér í Noregi.“
Nokkrir sem þekktu Dhuhulow báru kennsl á hann á myndum úr eftirlitsmyndavélum Westgate.
Á myndbandsupptöku sem hefur verið birt opinberlega má sjá fjóra árásarmenn vopnaða rifflum að skjóta saklausa gesti verslunarmiðstöðvarinnar. Þar má m.a. sjá einn þeirra skjóta mann sem er að reyna að fela sig. Maðurinn særist og það blæðir mikið. Þá gengur árásarmaðurinn aftur að honum og skýtur hann til bana.
Á myndböndunum sést hvernig fólk reyndi allt hvað það gat að fela sig, láta fara lítið fyrir sér, þrátt fyrir að vera skelfingu lostið af hræðslu.
Yfirvöld hafa ekki getað borið kennsl á lík árásarmannanna sem hafa fundist í rústum verslunarmiðstöðvarinnar. Þau eru öll illa brunnin. Hins vegar er reynt að bera kennsl á mennina af upptökum eftirlitsmyndavéla.
Tvö lík fundust í verslunarmiðstöðinni í gær og var vonast til að krufningu lyki nú um helgina. Talið er að þau séu af árásarmönnum, þar sem tveir rifflar fundust við hlið líkanna.
Sómalíski hryðjuverkahópurinn Shebab, einnig skrifað al-Shabab, ber ábyrgð á árásinni. Með henni vildi hann mótmæla veru kenískra hermanna í Sómalíu. Í fyrstu var talið að árásarmennirnir hefðu verið 10-15 en á eftirlitsmyndavélunum sjást aðeins fjórir menn. Þrír menn eru í varðhaldi vegna árásarinnar en þeir tóku ekki beint þátt í henni.
Sómalísk yfirvöld gætu hafa haft Dhuhulow í haldi fyrr á þessu ári en þá var maður með sama nafni handtekinn í Mógadisjú í tengslum við morð á sómalískum blaðamanni. Honum var sleppt skömmu síðar þar sem sönnunargögn skorti til að tengja hann við morðið.
Íbúar í smábænum Larvik í Noregi eru í áfalli og segja það ótrúlegt að hugsa til þess að á meðal þeirra hafi alist upp maður sem ætti síðar eftir að taka þátt í slíku ódæði.
Tugir Sómala sem búið hafa í Skandinavíu síðustu ár og áratugi hafa snúið aftir til heimalandsins til að taka þátt í stríðinu sem þar hefur geisað. Shebab-hópurinn er einn sá umsvifamesti.
Í frétt AFP kemur fram að um 20-30 manns hafi farið frá Noregi til að ganga til liðs við Shebab. Sumir þeirra hafa tekið þar að sér leiðtogahlutverk, að því er Stig Jarle Hansen, óháður sérfræðingur í tengslum Noregs og Sómalíu, segir.
„Þetta er engin fjölda herskráning en suma þessara manna þarf að taka mjög alvarlega,“ segir Hansen.
Norsk yfirvöld hafa enn ekki staðfest að Dhuhulow sé maðurinn sem keníska lögreglan telur sig sjá á myndunum af árásinni. Hins vegar segja þau að slíkt verði að teljast líklegt. Fulltrúar frá norsku lögreglunni eru komnir til Sómalíu til að taka þátt í rannsókninni og fá staðfest hvort Dhuhulow hafi tekið þátt í henni og hvort hann sé enn á lífi.
Norska lögreglan hefur áhyggjur á þeim aukna fjölda innflytjenda sem hafa snúið aftur til heimalanda sinna til að fá þjálfun í hryðjuverkabúðum. Annar Norðmaður sem á rætur að rekja til Sómalíu og Kenía hefur verið til rannsóknar í tengslum við hryðjuverk víða um heim. Hann er hugsanlega talinn hafa komið að skipulagningu árásarinnar í Westgate.
Hvergi í Evrópu búa jafnmargir Sómalir og í Skandinavíu ef Bretland er frátalið. Um 33 þúsund manns sem eiga rætur að rekja til Sómalíu búa í Noregi.