Malala hitti vinkonurnar sem særðust

Malala Yousafzai (t.h.), Kainat Riaz (t.v.) og Shazia Ramzan í …
Malala Yousafzai (t.h.), Kainat Riaz (t.v.) og Shazia Ramzan í Edinborgarháskóla í dag. AFP

Baráttukonan unga, Malala Yousafzai, hitti í dag tvær vinkonur sínar sem einnig særðust í árás talibana í Pakistan. Ætluðu þeir að drepa Malölu.

Kainat Riaz og Shazia Ramzan hittu Malölu við athöfn í Háskólanum í Edinborg en þetta er í fyrsta skipti sem stúlkurnar hittast frá því að árásin var gerð fyrir ári.

Byssumaður kom inn í skólabíl sem stúlkurnar voru í í október á síðasta ári. Hann hóf að skjóta á Malölu. Talibanar vildu refsa henni fyrir að berjast fyrir menntun stúlkna í landinu.

Malala er nú sextán ára. Hún fékk skot í höfuðið. Kainat og Shazia særðust einnig í árásinni.

Stúlkurnar búa nú allar í Bretlandi og eru þar við nám. Malala fékk læknisaðstoð á bresku sjúkrahúsi í kjölfar árásarinnar.

Þær voru í dag heiðursgestir á samkomu í Edinborgarháskóla á vegum alþjóðlegrar nefndar sem í eiga sæti forystumenn í stjórnmálum, trúmálum, lögum og mannúðarmálum.

„Eftir að ég var skotin héldu hryðjuverkamennirnir að ég myndi hætta baráttu minni fyrir menntun, en ég hætti henni ekki og nú eru Kainat og Shazia hér til að styðja mig,“ sagði Malala í dag.

„Þær eru ekki hræddar, við erum ekki hræddar og nú styður fólk okkur og það þarf hugrekki til, og það er það vopn sem við höfum, að standa saman og vera saman.“

Malala hlaut einnig heiðursnafnbót við Edinborgarháskóla og var það Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, sem afhenti henni hana. Hann hefur stutt dyggilega við baráttu hennar.

Malala Yousafzai á milli Gordons Brown (t.v.) og Timothy O'Shea …
Malala Yousafzai á milli Gordons Brown (t.v.) og Timothy O'Shea rektors Edinborgarháskóla. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert