Bróðirinn segir lögregluna blekkja

Annecy-vatn. Árásin var framin skammt frá vatninu.
Annecy-vatn. Árásin var framin skammt frá vatninu. AFP

Bróðir breska mannsins sem var drepinn ásamt fjölskyldu sinni í Ölpunum í fyrra neitar staðfastlega að hafa skipulagt drápin. Hann hefur sakað frönsku lögregluna um að blekkja og hefur boðist til að tengjast lygamæli til að sanna orð sín.

Zaid al-Hilli er frá Surrey. Bróðir hans, eiginkona og tengdamóðir voru öll drepin í skotárás í Ölpunum í fyrra. Tvær dætur bróður hans komust lífs af. Einnig var hjólreiðamaður skotinn til bana í árásinni.

Zaid al-Hilli var handtekinn grunaður um að skipuleggja morðin en er nú laus gegn tryggingu. Franski saksóknarinn segist sannfærður um að það hafi verið miklar illdeilur á milli bræðranna.

Árásin á Saad al-Hilli og fjölskyldu hans var gerð 5. september í fyrra í nágrenni við Annecy vatn.

Því hefur m.a. verið haldið fram að árásin hafi snúist um peninga og að Zaid hafi viljað komast yfir peninga Saads, m.a. þá sem hann erfði eftir föður þeirra, og því látið myrða hann. 

Zaid hefur hins vegar neitað sök og segir ásakanirnar fáránlegar. Hann segir þá bræður ekki hafa deilt um arfinn. Þeim hafi komið ágætlega saman þó að samskipti þeirra hafi að mestu farið fram í gegnum lögfræðinga síðustu 11 mánuðina áður en Saad lést, segir í frétt BBC um málið.

Zaid segir að franska lögreglan hafi hætt að rannsaka þann möguleika að hjólreiðamaðurinn, Sylvain Mollier, hefði verið hið raunverulega skotmark.

„Þeir eru að hylma yfir með einhverjum í Frakklandi, ég veit það.“

Hann segir að Mollier hafi átt í útistöðum við fjölskyldu sína og hafi verið svarti sauðurinn í auðugri fjölskyldu.  Franski saksóknarinn er hins vegar sannfærður um að hjólreiðamaðurinn var aðeins á röngum stað á röngum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert