Góðgerðarsamtökunum The Smile of the Child hafa borist þúsundir tölvubréfa og símtala eftir að fréttir bárust af litlu stúlkunni sem tekin var af pari í hverfi rómafólks á Grikklandi. Að sögn talsmanns samtakanna hafa borist átta ábendingar sem þeir telja vænlegar í tengslum við mál stúlkunnar. Grísk yfirvöld hafa beðið Interpool að lýsa eftir foreldrum stúlkunnar sem kölluð er Maria.
Að sögn Sky-sjónvarpsstöðvarinnar bjó stúlkan við sóðalegar aðstæður í hverfi rómaólksins Farsala í Grikklandi síðastliðinn. Hún fannst síðastliðinn miðvikudag eftir að lögregla fór inn í hverfið í leit að vopnum og eiturlyfjum.
Góðgerðarsamtökunum hafa borist fleiri en fimm þúsund ábendingar frá Grikklandi og víðar og mörg þúsund tölvubréf frá Bandaríkjunum, Evrópu og Ástralíu. Átta ábendingar þykja vænlegar og voru fjórar þeirra frá Bandaríkjunum og hinar frá Svíþjóð, Frakklandi, Kanada og Póllandi. Hafa samtökin komið ábendingunum áfram til lögreglu.
Að sögn talsmanns samtakanna leikur stúlkan sér nú með leikföng á spítalanum og líður mun betur. „Við höfum reynt að róa stúlkuna og leika við hana,“ segir hann. Sérfræðingar munu meta hvernig best er að hlúa að stúlkunni.
Parið hefur ítrekað breytt frásögn sinni um hvernig stúlkan kom til þeirra, að því er fram kemur í frétt Sky. Hjá þeim voru skráð 14 börn og hefur ekki verið hægt að hafa uppi á tíu þeirra. Í gær sögðu lögmenn parsins að móðir stúlkunnar hefði gefið þeim hana. Ekkert mannrán hefði átt sér stað.
Frétt mbl.is: „Við elskum hana svo mikið.“