„Við elskum hana svo mikið“

Lögreglan hefur dreift þessari mynd af Mariu litlu.
Lögreglan hefur dreift þessari mynd af Mariu litlu. AFP

Vel var hugsað um litlu stúlkuna sem fannst hjá pari í hverfi rómafólks á Grikklandi að sögn ættingja. Hann segir að móðir stúlkunnar hafi gefið þeim barnið.

Litla stúlkan er kölluð Maria og er talin vera fjögurra ára. Hún fannst í hverfi rómafólksins á miðvikudag og sýndi DNA-rannsókn að hún var ekki skyld parinu sem hafði umsjón með henni.

Parið, 39 ára karlmaður og fertug kona, voru handtekin í kjölfarið. Ættingi parsins, sem er kallaður Kostas í frétt Sky-fréttastofunnar, segir að stúlkan hafi notið ástúðar og góðrar umönnunar.

„Við fengum þessa stúlku með góðu. Við ólum hana upp,“ segir hann. Hann segir að stúlkan hafi verið með sýkingu í augum og að farið hafi verið með hana til læknis. 

„Við tókum hana ekki til að selja hana. Við elskum hana svo mikið.“

Giorgos Tsakiris, yfirmaður samtaka rómafólks í Farsala  þar sem stúlkan fannst, segir að stúlkan hafi átt gott líf.

„Ég get sagt þér að hún hafði það betra en systkini hennar, þau sem voru líffræðilega skyld parinu,“ segir hann við Sky. Hann segir ekkert til í  því að stúlkunni hafi verið rænt.

Grísk yfirvöld hafa beðið Interpol að auglýsa eftir foreldrum stúlkunnar.

Stúlkan er nú í umsjón góðgerðarsamtakanna The Smile oft he Child.

Parið hefur ítrekað breytt frásögn sinni um hvernig stúlkan kom til þeirra, að því er fram kemur í frétt Sky. Hjá þeim voru skráð 14 börn og hefur ekki verið hægt að hafa uppi á tíu þeirra.

Í gær sögðu lögmenn parsins að móðir stúlkunnar hefið gefið þeim hana. Ekkert mannrán hefði átt sér stað.

Leitað er að foreldrum þessarar stúlku.
Leitað er að foreldrum þessarar stúlku. Sky-fréttastofan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert