Stjórnvöld í kenísku borginni Naíróbí hafa gert fleiri myndbrot opinber frá því þegar hryðjuverkamenn réðust inn í verslunarmiðstöðina Westgate. Á nýjustu myndbrotunum má sjá þegar hermenn koma vel vopnum búnir inn í verslunarmiðstöðina en ganga í hægðum sínum út, klyfjaðir innkaupapokum.
Myndbandið er frá öðrum degi umsátursins. Hermennirnir læðast inn í búðina með skotvopn sín uppi við en þegar þeir svo ganga út úr versluninni hafa þeir slíðrað vopnin og skipt þeim út fyrir innkaupapokana. Þá má sjá stoppa á leiðinni og skoða vöruúrvalið.
Kenískir þingmenn hafa þegar fyrirgefið hermönnunum að hafa farið ránshendi um verslunarmiðstöðina og verða engin eftirmál þess.
Á öðrum myndbrotum - sem eru upptökur úr eftirlitsmyndavélum - má sjá hryðjuverkamenn skjóta fólk með köldu blóði þegar þeir ruddust um ganga verslunarmiðstöðvarinnar. Einnig má sjá viðskiptavini flýja skothríðina skelfingu lostna í von um að komast undan. Vel á sjöunda tug manna féllu í árásinni og er á þriðja tug manna enn saknað.