Hleraði tugi milljóna franskra símanúmera

Úr myndasafni.
Úr myndasafni. mbl.is/Brynjar Gauti

Frönsk stjórnvöld hafa krafist skýringa frá bandarískum ráðamönnum eftir að franska dagblaðið Le Figaro upplýsti að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA) hafi hlerað milljónir símtala í Frakklandi.

Fram kemur í frétt AFP að NSA hafi hlerað rúmlega 70 milljónir símtala á tímabilinu 10. desember og 8. janúar síðastliðinn. Le Figaro byggir fréttaflutning sinn á upplýsingum frá bandaríska uppljóstraranum Edward Snowden. Samkvæmt þeim hleraði stofnunin sjálfkrafa samskipti í gegnum ákveðin símanúmer og tók ennfremur afrit af smáskilaboðum í aðgerð sem kallaðist US-985D.

Franska blaðið fullyrðir að gögnin gefi tilefni til að ætla að NSA hafi ekki eingöngu beint aðgerðum sínum að fólki sem grunað væri um að tengjast hryðjuverkastarfsemi heldur einnig háttsettum einstaklingum í alþjóðlegu stjórnmála- og viðskiptalífi.

Þá segir í fréttinni að bandarísk stjórnvöld hafi neitað að tjá sig um málið þegar Le Figaro leitaði eftir viðbrögðum þeirra þar sem um væri að ræða trúnaðarskjöl. Samkvæmt gögnunum braust NSA einnig inn í tölvupóst Felipe Calderon, fyrrverandi forseta Mexíkó, sem kallað hefur einnig á kröfur frá þarlendum stjórnvöldum um skýringar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert