Hermenn sem tóku þátt í umsátrinu um hryðjuverkamennina í verslunarmiðstöðinni í Naíróbí í síðasta mánuði eru sakaðir um að hafa stolið úr verslunum á meðan aðgerðinni stóð. Þeir gerðu það til „að tryggja öryggi sitt,“ segir yfirmaður hersins.
Verslunareigendur, m.a. þeir sem ráku skartgripabúðir og aðrar lúxusvöruverslanir í Westgate segja að öllu steini léttara hafi verið rænt úr verslunum á meðan umsátrinu stóð.
Yfirmaður hersins sagði við skýrslutöku hjá þingnefnd sem fer með rannsókn á hryðjuverkunum, aðdraganda þeirra og eftirmálum, að hermennirnir hefðu ekki verið að stela, þeir hafi tekið drykki og fleira úr matvöruverslun til að „svala þorsta sínum“.
Spurður um annað sem þeir tóku sagði yfirmaðurinn að þeir hafi tekið hluti „til að tryggja öryggi sitt“.
Nokkrir verslunareigendur hafa sagt að þeir hafi læst búðum sínum áður en að þeir yfirgáfu verslunarmiðstöðina. Hins vegar hafi verið brotist þangað inn og öllu stolið, m.a. mjög verðmætum hlutum, s.s. myndavélum, símum, úrum og skartgripum.
Í upptökum öryggismyndavéla sem birtar hafa verið má sjá hermenn halda á hvítum plastpokum út úr stórmarkaði. Á öðru myndskeið sem var tekið upp á öðrum degi umsátursins, er aðeins hermenn höfðu að gang að byggingunni, má sjá óeinkennisklædda hermenn leggja frá sér byssur sínar til að geta notað báðar hendur við að hreinsa úr hillum verslana, segir í frétt AFP.
Frétt mbl.is: Hermenn gengu út með innkaupapoka