Interpol aðstoðar í máli Mariu

Eleftheria Dimopoulou og Hristos Salis ásamt Mariu litlu. Parið hefur …
Eleftheria Dimopoulou og Hristos Salis ásamt Mariu litlu. Parið hefur verið ákært fyrir að ræna stúlkunni, en hún fannst hjá þeim í búðum róma-fólksins á Grikklandi. Parið neitar sök. AFP

Yfirvöld í Grikklandi hafa beðið alþjóðalöggæslustofnunina Interpol um aðstoð við að bera kennsl á ljóshært stúlkubarn sem fannst í síðustu viku á meðal róma-fólks í Grikklandi.

Rannsóknin byggist á DNA-greiningu sem hefur verið framkvæmd og send til allra ríkja sem eiga aðild að Interpol. 

Interpol hefur gefið út svokallaða gula tilkynningu sem er dreift þegar verið er að leita upplýsinga um týnda einstaklinga, en tilkynningin á sérstaklega við ólögráða einstaklinga eða einstaklinga sem geta ekki sjálfir upplýst hverjir þeir eru. 

Fram kemur í yfirlýsingu frá Interpol, að upplýsingar um stúlkuna hafi verið bornar saman við DNA-gagnagrunn Interpol. Engin niðurstaða liggur hins vegar fyrir. 

Þá segir að þjóðirnar 190 sem eigi aðild að stofnuninni séu hvattar til að bera saman niðurstöður DNA-greiningar á stúlkunni saman við þeirra eigin gagnagrunna. 

Tekið er fram að grísk yfirvöld rannsaki nú hvort stúlkunni hafi verið rænt eða hún sé fórnarlamb glæpamanna sem selji börn. 

Í dag var greint frá því, að foreldrar stúlku, sem hvarf í Bandaríkjunum fyrir tveimur árum, haldi því fram að Mariu, stúlknni sem fannst í Grikklandi, svipi til dóttur þeirra, Lisu. Stúlkan var aðeins 11 mánaða þegar hún hvarf. Ábending foreldranna er ein þeirra fjögurra ábendinga sem borist hafa frá einstaklingum í Bandaríkjunum vegna málsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert