Græneygð og ljóshærð stúlka meðal róma-fólks. Það fannst lögreglunni sem leitaði vopna í hverfi þeirra á Grikklandi nógu grunsamlegt til að rannsaka uppruna hennar og tengsl við parið sem hún bjó hjá. Róma-fólk verður fyrir miklum fordómum um alla Evrópu. Lífsstíll þeirra er ólíkur því sem flestir eiga að venjast. En róma-fólk hefur sjálft orðið fyrir barðinu á mansalshringjum - dæmi eru um að börnum þeirra sé rænt og þau seld til Grikklands.
En í þessu tilviki hafði lögreglan vissulega eitthvað fyrir sér: Stúlkan er ekki skyld parinu og skýringar þeirra á dvöl hennar í hverfinu eru ekki taldar trúverðugar af lögreglunni og þeim sem fara með rannsókn málsins. Þau hafa ítrekað breytt frásögn sinni en lögmenn þeirra fullyrða að móðir stúlkunnar hafi gefið þeim hana.
Þessu trúir saksóknarinn ekki - enda hefur parið ekki sýnt fram á nein gögn máli sínu til stuðnings. Hvor sem að saga þeirra er sönn eða ekki - þá er ættleiðingin líkast til ekki lögleg.
Parið hefur því verið ákært fyrir mannrán, fyrir að hafa rænt Mariu litlu sem í fjölmiðlum er nú kölluð „ljóshærði engillinn“. Mál hennar hefur orðið til þess að foreldrar barna sem er saknað hafa öðlast von um að hugsanlega séu börn þeirra enn á lífi.
Parið er enn í varðhaldi og gæti átt yfir höfði sér 10-20 ára fangelsi, verði þau fundin sek.
Í fyrstu var talið að Maria væri fjögurra ára en nú er sagt að líklega sé hún fimm eða jafnvel sex ára gömul.
Ólöglegar ættleiðingar sem í sumum tilvikum tengjast mansali með börn, blómstrar á Grikklandi. þar er fæðingartíðni lág og opinberar ættleiðingar tímafrekar.
Lögreglan segir að foreldrar borgi 15-20.000 evrur fyrir börn eða um 3 milljónir króna. Hún segir ekki óalgengt að glæpamenn hafi samband við fátækt róma-fólk í Búlgaríu og borgi því fyrir börn sín. Upphæðin sem foreldrarnir fá er smávægileg miðað við það sem börnin eru svo seld á.
Smile of the Child, samtökin sem nú sjá um Mariu, segjast hafa fengið mörg þúsund ábendingar á undanförnum dögum. Meðal þeirra sem haft hafa samband eru foreldrar barna sem hefur verið saknað um lengri eða skemmri tíma. Forstöðumaður samtakanna segir að málið hafi vakið athygli á mansali með börn sem sé löngu tímabært að skera upp herör gegn.
Grísk yfirvöld vinna í samstarfi við Interpol að því að finna líffræðilega foreldra Mariu. Þá er lögreglan á Grikklandi sögð vera að rannsaka sjúkrahús og fleiri stofnanir sem þjónusta börn og barnafólk. Leikur grunur á að glæpahringur sem ræni og selji börnum sem starfandi á Grikklandi og í Búlgaríu.
„Lögreglan skoðar allar hliðar málsins,“ segir talsmaður lögreglunnar.
Í janúar árið 2011 handtók lögreglan um tug manna á Balkanskaga fyrir að selja börn til Grikklands. Í því tilviki var börnum rænt frá róma-fólki og þau seld. Sá glæpahringur flutti óléttar róma-konur til Grikklands þar sem þær fæddu börn sín. Þau voru svo tekin af þeim og seld.