Annað barn tekið frá róma-fólki

AFP

Írsk stjórnvöld hafa tekið annað barn af rómafjölskyldu þar sem vafi leikur á um hvort barnið, tveggja ára gamall drengur, sé sonur fólksins sem hann býr hjá.

Sígaunar, öðru nafni róma-fólk, eru stærsti þjóðernisminnihlutahópur Evrópu, og er þetta þriðja málið sem kemur upp á stuttum tíma í Evrópu þar sem börn eru tekin af þeim þar sem vafi leikur á um ætterni barnanna.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var drengurinn tekinn frá fjölskyldu í Athlone í gær og komið í umsjón barnaverndaryfirvalda. Honum var hins vegar skilað fljótlega aftur til foreldra sinna. 

Í síðustu viku var lítil stúlka tekin frá rómafólki í Grikklandi og hefur rannsókn leitt í ljós að þau eru ekki foreldrar hennar. Síðar í dag er von á niðurstöðu á lífsýni úr sjö ára gamalli stúlku sem var á mánudag tekin frá fjölskyldu sinni í Dyflinni.

Varað hefur verið við „nornafári“ gagnvart sígaunum vegna málsins í Grikklandi.

Sígaunar eru dreifðir um Evrópu, Vestur-Asíu og Norður-Afríku, upphaflega frá Norður-Indlandi. Í Mið- og Austur-Evrópu er algengt að sígaunar kalli sig „róma“, sem merkir „maður“ eða „eiginmaður“ á tungumáli þeirra, rómaní. Í þýskumælandi löndum og víðar kalla sígaunar sig „sinti“, en þeir tala sérstaka mállýsku. Margir sígaunar telja að orðið sé dregið af heiti indverska héraðsins Sindhi, að því er fram kom í fréttaskýringu sem Morgunblaðið birti um málefni sígauna í september 2010.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert