Ekki ljóst hverra manna stúlkan er

Sígaunastúlka í Grikklandi.
Sígaunastúlka í Grikklandi. AFP

Írsk yfirvöld bíða nú niðurstöðu lífsýnisrannsóknar (DNA) á ungri stúlku sem tekin var frá sígaunafjölskyldu í Dyflinni á mánudag. Foreldrar stúlkunnar segja að hún sé dóttir þeirra. Þykir málið minna mjög á mál lítillar stúlku sem nýverið var tekin af heimili sígauna í Grikklandi. Þar kom í ljós að sú stúlka var ekki dóttir fólksins sem hún var hjá.

Lögreglan í Dyflinni kom stúlkunni, sem er sjö ára, í umsjón heilbrigðisyfirvalda í borginni á mánudag en grunur leikur á um að hún sé ekki dóttir hjónanna sem hún bjó hjá. Er það einkum það hversu ólík hún er foreldrum sínum sem vakti grunsemdir en stúlkan er ljóshærð og bláeygð. Samkvæmt fréttum írskra fjölmiðla gátu foreldrarnir heldur ekki sannað hver hún væri.

Irish Times hefur hins vegar eftir fjölskylduvini, Gabby Muntean, að stúlkan sé dóttir þeirra. Hann segir að foreldrarnir séu mjög reiðir út í yfirvöld vegna málsins og þau hafi boðist til þess að veita lífsýni og blóðprufur til þess að sanna mál sitt.

„Það eina sem þau vilja er að fá dóttur sína aftur. Erfitt sé að sjá ástæðuna fyrir því hvers vegna hún var tekin af þeim aðra en fréttir frá Grikklandi.“

Sígaunapar var ákært á mánudag fyrir að hafa rænt stúlkunni sem fannst hjá þeim í síðustu viku. Samkvæmt fjölmiðlum á Írlandi lögðu foreldrar stúlkunnar í Dyflinni fram fæðingarvottorð stúlkunnar en lögregla er hins vegar ekki sannfærð um uppruna hennar.

Systir stúlkunnar segir í viðtali við Irish Independent að stúlkan sé hluti fjölskyldunnar og hafi verið hjá þeim allt frá fæðingu árið 2006. Systirin, sem er 21 árs, segir að fjölskyldan sé frá Rúmeníu en hafi flutt til Írlands árið 2001. Þau hafi búið í Tallaght, suðvestur af Dyflinni frá árinu 2009.

„Litli bróðir minn er einnig ljóshærður og með blá augu,“ segir unga konan í viðtalinu.

Von er á niðurstöðu lífsýnisrannsóknarinnar síðdegis í dag. Vegna afar strangra barnaverndarlaga í Írlandi hafa yfirvöld veitt afar takmarkaðar upplýsingar um málið og hefur hvorki stúlkan né fjölskylda hennar verið nafngreind opinberlega.

Í málinu sem kom upp í Grikklandi leiddi lífsýnisrannsókn það í ljós að stúlkan, Maria, er ekki skyld parinu sem sagðist vera foreldrar hennar. Maria er fimm eða sex ára gömul. Foreldrar þúsunda barna sem hafa horfið í heiminum undanfarin ár hafa haft samband við lögreglu í þeirri von um að Maria sé dóttir þeirra.

Frétt Irish Times

Frétt Irish Independent

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert