Vel var hugsað um „ljóshærða engilinn“

Christos Sali (t.h.) og Eleutheria Dimopoulou (t.v.), ásamt Mariu litlu.
Christos Sali (t.h.) og Eleutheria Dimopoulou (t.v.), ásamt Mariu litlu. AFP

Þau eru sárreið þar sem þau standa fyrir framan einingahús sín í þorpinu í miðju Grikklandi. Þorpið hefur verið umfjöllunarefni fjölmiðla allt frá því ljóshærð, græneygð stúlka fannst þar í síðustu viku.  „Einn daginn kom bara lögreglan og tók barnið. Af hverju? Við erum ekki þjófar og morðingjar,“ segir Haralambos Dimitriou, forsvarsmaður róma-fólksins í Farsala-hverfinu.

Um allan heim hefur fréttin um litlu stúlkuna Mariu vakið sterk viðbrögð. Málið hefur vakið athygli á mansali með börn í heiminum og vakið vonir í brjósti foreldra barna sem hefur verið saknað í lengri og skemmri tíma.

Um 2.000 manns búa í Farsala-hverfinu. Þar hefur róma-fólk haldið til í áratugi. Það er mikil reiði meðal fólksins vegna þeirrar ákvörðunar lögreglunnar að taka stúlkuna frá fólkinu sem hún hefur hingað til talið foreldra sína.

Stúlkan Maria hefur verið kölluð „ljóshærði engillinn“. Hún er talin fimm eða sex ára. Hún fannst í hverfinu í lögregluaðgerð 16. október. Lögreglan gerir oft áhlaup á hverfi rómafólks í leit að ólöglegum vopnum og eiturlyfjum.

Stúlkan bjó hjá Christos Salis og Eleftheria Dimopoulou sem segja að búlgörsk verkakona hafi skilið stúlkuna eftir hjá því.

Maria bjó ásamt parinu í litlu hvítu og gráu húsi.  „Fjölmiðlar hafa verið að halda því fram að stúlkan hafi verið lokuð inni og fengið sorp að borða,“ segir nágranni fólksins.

Talið er að Salis og Dimopoulou eigi fimm önnur börn en í fórum þeirra fundust skilríki með öðrum nöfnum sem þau hafa notað. Samkvæmt lögreglunni voru 14 börn skráð hjá parinu í fjórum mismunandi borgum. Þrjú þeirra fæddust á fimm mánaða tímabili. Þetta segir lögreglan þau hafa gert til að fá bætur.

Nágrannar og vinir parsins segja þau hafa hugsað vel um Maríu. Hún hafi fengið alla þá læknisaðstoð sem hún þurfti. „Hún var alltaf að leika sér og talaði við alla. Hvernig geta þeir sagt að hún sé hamingjusamari núna?“ spyr Vassilis Tzakis.

„Allir þekktu barnið, lögreglan vissi að hún var hér, hún fór um hverfið, fór í búðina, jafnvel til borginnar Larissa með foreldrum sínum og var viðstödd brúðkaup,“ segir forsvarsmaðurinn Dimitriou. 

Smile of the Child, góðgerðarsamtök í Aþenu, hafa nú umsjón með barninu.

Gríska lögreglan kafar nú ofan í um tíu mannránsmál sem tengjast börnum frá fjórum löndum. Þetta er gert í samvinnu við lögregluna í Bandaríkjunum, Svíþjóð, Pólland og Frakkland. Talið er hugsanlegt að Maria sé eitt þessara barna sem saknað er frá þessum löndum.

Notast er við DNA-sýni við lausn málsins, að sögn gríska forsætisráðherrans, Antonis Samaras. „Við gerum allt sem við getum fyrir þessa litlu stúlku, svo hún fái að njóta góðs lífs það sem eftir er í kjölfar þessa harmleiks,“ segir hann.

Smile of the Child hafa fengið yfir 8.000 ábendingar víðs vegar að úr heiminum í kjölfar fundar Mariu.

Börn að leik í Farsala-hverfinu á Grikklandi.
Börn að leik í Farsala-hverfinu á Grikklandi. AFP
Róma-fólk í Farsala-hverfinu á Grikklandi.
Róma-fólk í Farsala-hverfinu á Grikklandi. AFP
Farsala-hverfið samanstendur af litlum einingahúsum.
Farsala-hverfið samanstendur af litlum einingahúsum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert