Bandaríski klámkóngurinn, Larry Flynt, hefur beðið bandarísk yfirvöld að þyrma lífi mannsins sem skaut hann fyrir 35 árum. Flynt lamaðist og hefur verið bundinn við hjólastól eftir það.
Raðmorðinginn, Joseph Paul Franklin, verður tekinn af lífi í næsta mánuði fyrir morðið á Gerald Gordon fyrir utan samkomuhús gyðinga í St. Louis, Missouri árið 1977.
Franklin skaut Flynt fyrir utan dómshús í Georgíu árið 1978 en réttað var yfir Flynt þar vegna kláms. Franklin var aldrei ákærður fyrir árásina á Flynt.
Í grein sem Flynt ritar í The Hollywood Reporter kemur fram að hann vilji lama Franklin en ekki drepa. „Á öllum þessum árum sem eru liðin frá skotárásinni hef ég aldrei staðið augliti til auglitis við Franklin,“ skrifar Flynt. „Ég væri alveg til í að eyða klukkustund með honum þar sem ég væri vopnaður vírklippum og töngum svo ég gæti veitt honum sömu áverka og hann veitti mér. En ég vil ekki drepa hann né heldur vil ég að hann verði tekinn af lífi.“
Að sögn Flynts er ástæðan fyrir því að Franklin réðst á hann sú að Flynt birti mynd af svörtum manni í Hustler tímaritinu með hvítri konu. Franklin er að sögn Flynts kynþáttahatari sem hataði svarta en einnig gyðinga.
Hæstiréttur Missouri hefur dæmt að Franklin verði tekinn af lífi þann 20. nóvember nk.