Talið er að búlgörsk kona, sem hugsanlega er líffræðileg móðir Mariu litlu, hafi fætt hana á sjúkrahúsi á Grikklandi. „Þetta er dóttir mín,“ á konan að hafa sagt er hún sá myndir af stúlkunni í sjónvarpinu.
Sjúkrahúsið er í borginni Lamia, skammt frá Farsala-hverfinu þar sem stúlkan fannst meðal róma-fólks. Búlgarska og gríska lögreglan rannsaka nú í sameiningu hvort að konan sé móðir Mariu. M.a. verður gerð DNA-rannsókn. Konan og eiginmaður hennar eru nú yfirheyrð í Búlgaríu vegna málsins. Þau tilheyra hópi róma-fólks þar í landi. Þau eiga mörg börn og þykja sum þeirra líkjast Mariu.
Konan heitir Sasha Ruseva og er 35 ára. „Þetta er dóttir mín,“ á konan hafa sagt er hún sá myndir af Mariu í sjónvarpinu. Þetta segir sonur hennar, Isa Rusev sem er fimmtán ára.
Í frétt Telegraph kemur fram að sjúkraskýrslur sýni að Ruseva hafi fætt stúlku í Lamia 31. janúar árið 2009. Parið sem Maria bjó hjá hefur sagt lögreglu að það sé fæðingardagur stúlkunnar. Þar kemur ennfremur fram að Ruseva hafi reynt að skrá stúlkuna og sagt að hún væri ógift og vissi ekki hver faðir hennar væri.
Yfirvöld voru strax efins þar sem önnur gögn sýndu fram á að Ruseva ætti tvö börn með eiginmanni sínum. Vakin var athygli á þessu á umsókn konunnar um skráningu stúlkunnar með orðunum: „Varúð - hún er gift“. Þá segir Telegraph að til hafi staðið að rannsaka málið en óvíst er hvort það hafi verið gert. Þessi gögn sem Telegraph vitnar til voru birt á grísku vefsíðunni Zougla.gr í dag.
Í kjölfar þessara upplýsinga bað gríska lögreglan um aðstoð þeirrar búlgörsku. Nágrannar hjónanna segja að þau eigi mörg börn og að nokkur þeirra séu ljóshærð eins og Maria.
Parið sem stúlkan fannst hjá í Farsala hefur verið ákært fyrir mannrán en það hefur ávallt neitað sök.