„Ég seldi hana ekki!

Sasha Ruseva með yngstu dóttur sína í fanginu.
Sasha Ruseva með yngstu dóttur sína í fanginu. AFP

Kona úr hópi róma-fólks í Búlgaríu hefur nú verið yfirheyrð vegna máls lítillar ljóshærðar stúlku sem fannst meðal róma-fólks á Grikklandi. Hún játar að hafa yfirgefið stúlkubarn fyrir nokkrum árum en neitar að hafa tekið við peningagreiðslum.

„Ég er ekki viss um að þessi Maria sé dóttir mín en hún gæti verið það. En umfram allt, ég seldi hana ekki! Ef það væri tilfellið myndum við þá búa hér við þessar aðstæður?“ segir konan sem heitir Sasha Ruseva.

Hún býr ásamt fjölskyldu sinni í smábænum Nikolaevo í miðri Búlgaríu. Fjölskyldan býr við þröngan kost í niðurníddu húsi. Ekkert holræsakerfi er á svæðinu og rusl um allt.

Sasha er 35 ára. Eiginmaðurinn heitir Atanas og er 38 ára. þau búa með fimm af átta börnum sínum í einu herbergi með kolaeldavél.

Frændi konunnar segir hana og eiginmanninn hafa unnið ólöglega í Grikklandi. Þegar dóttir þeirra fæddist gátu þau ekki fengið löglega pappíra svo þau gætu tekið stúlkuna með sér til Búlgaríu. Því hafi þau skilið hana eftir hjá annarri fjölskyldu.

Sasha og Atanas eru nú atvinnulaus. 

Margir í smábænum í Búlgaríu segja að parið hafi þegið peninga í skiptum fyrir barnið. Þau hafi m.a. notað hann til að komast heim frá Grikklandi.

Nú er beðið niðurstöðu DNA-prófs um hvort Maria sé dóttir Söshu og Atanas.

Börn þeirra þykja mjög lík Mariu. Þau eru ljóshærð og bláeygð. Atanas og Sasha eru þó sjálf dökkhærð en margir ættingjar þeirra eru ljóshærðir.

Frá smábænum Nikolaevo þar sem margt róma-fólk býr.
Frá smábænum Nikolaevo þar sem margt róma-fólk býr. AFP
Tvö barna Söshu Ruseva og Atanas Rusev.
Tvö barna Söshu Ruseva og Atanas Rusev. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert