Dómstóll í Kína hafnaði áfrýjunarbeiðni Bo Xilai, sem var á meðal helstu leiðtoga kínverska Kommúnistaflokksins, en hann var fyrr á árinu dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir mútuþægni og fyrir að misnota vald sitt meðan hann var í embætti.
Xilai mun væntanlega afplána fangelsisdóminn í Qincheng-fangelsi en það er talið vera á við lúxushótel.
Algengt er að stjórnmálamenn og yfirmenn í kínverska hernum séu látnir afplána dóma sína í Qincheng-fangelsi þegar þeir eru fundnir sekir. Fangar í fangelsinu búa í stórum fangaklefum, fá úrval af góðum mat sem eldað er ofan í þá af meistarakokkum og ráða för sinni innan fangelsisins nokkurn veginn sjálfir. Einu takmörkin eru ytri veggir fangelsisins.
Bo Xilai var leiðtogi kommúnistaflokksins í stórborginni Chongqing þar til hann var sviptur öllum embættum sínum í fyrra þegar eiginkona hans var sökuð um morð á breskum kaupsýslumanni, Neil Heywood. Eiginkonan, Gu Kailai, var í fyrra dæmd fyrir morðið á breska kaupsýslumanninum.
Áður en málið kom upp átti Bo Xilai sæti í stjórnmálaráði kínverska kommúnistaflokksins, æðstu valdastofnun hans, og búist hafði verið við að hann yrði skipaður í fastanefnd ráðsins sem tekur allar lykilákvarðanir í kínverskum stjórnmálum. Þar sem niðurstaða dómstólsins í dag er endanleg er ljóst að Bo mun ekki komast til frekari metorða innan kínverska ríkisins heldur dvelja á bak við lás og slá það sem eftir er ævinnar.