Maria, stúlkan sem fannst meðal róma-fólks á Grikklandi, er dóttir búlgarsks pars. Þetta hefur DNA-rannsókn leitt í ljós. Hafa yfirvöld í Búlgaríu staðfest þetta. Sasha Ruseva og Atanas Rusev unnu ólöglega á Grikklandi fyrir nokkrum árum. Þau eignuðust stúlkuna þar í landi en fluttu heim til Búlgaríu án hennar. Þau hafa sagst hafa skilið hana eftir hjá fjölskyldu róma-fólks en neita að hafa þegið peningagreiðslu fyrir. „Ég seldi hana ekki!“ fullyrti Ruseva við fjölmiðla í dag.
Þau búa nú í smábæ í Búlgaríu og eiga átta börn.
Nú er verið að rannsaka hvort að móðir stúlkunnar hafi selt hana, segir í frétt BBC.
Stúlkan fannst á meðal róma-fólksins fyrir rúmlega viku síðan. Parið sem hún bjó hjá var fyrr í vikunni ákært fyrir mannrán.
Sasha Ruseva hefur játað að hafa skilið stúlkuna eftir.