Ár er liðið síðan fellibylurinn Sandy gekk yfir austurströnd Bandaríkjanna og kostaði að minnsta kosti 117 manns lífið. Sandy er versta óveður sem hefur gengið yfir Bandaríkin frá því fellibylurinn Katrín reið þar yfir árið 2005.
Í gær var safnið á Ellis Island opnað á ný en það hefur verið lokað síðan Sandy gekk á land þar sem neðri hlutar New York borgar fóru á kaf. Víða er enn unnið að endurbótum eftir fellibylinn á þeim svæðum sem verst urðu úti í óveðrinu.
Samkvæmt Reuters fréttastofunni var einungis búið að úthluta fjórðungi þess fjár sem eyrnamerkt er endurbótum vegna tjóns af völdum fellibylsins. Alls eru 48 milljarðar Bandaríkjadala í sjóðnum sem ætlaður er fyrir sveitarstjórnir til þess að greiða fyrir endurbætur á mannvirkjum. Stefnt er að úthluta um 5 milljöðrum Bandaríkjadala fljótlega til þeirra ríkja sem urðu verst úti fljótlega.