Bitist um Mariu

Selini Sali, Maria og Christos Sali
Selini Sali, Maria og Christos Sali AFP

Búlgörsk yfirvöld ætla að óska eftir því við Grikki að unga stúlkan, Maria, sem fannst í búðum rómafólks fyrr í mánuðinum verði framseld til Búlgaríu en foreldrar hennar eru búlgarskir.

Í tilkynningu frá barnaverndaryfirvöldum í Búlgaríu kemur fram að gripið verði til nauðsynlegra aðgerða til að tryggja að Maria snúi aftur til Búlgaríu en rannsókn á lífsýnum sýnir að foreldrar hennar eru Sashka og Atanas Rusev frá bænum Nikolaevo.

Maria, sem er fjögurra ára gömul, vakti heimsathygli fyrr í mánuðinum þegar hún fannst á heimili Róma-fjölskyldu í gríska þorpinu Farsala. Í ljós kom að hún væri ekki dóttir hjónanna þrátt fyrir fullyrðingar þeirra þar um. Í síðustu viku fundust hinir réttu foreldrar sem einnig eru róma-fólk sem býr í bænum Nikolaevo.

Sashka og Atanas Rusev eiga níu önnur börn en af þeim eru fimm einnig ljóshærð líkt og Maria. Þau hafa viðurkennt að hafa gefið stúlkuna þegar hún var sjö mánaða gömul. Báru þau við fátækt en þau bjuggu í Grikklandi á þeim tíma. Er nú rannsakað hvort þau hafi selt stúlkuna. Móðirin neitar því og segist vilja fá barnið sitt aftur.

En hún er ekki ein um það því parið sem var með Mariu vill einnig fá að eiga hana áfram. Þau eru í haldi lögreglu. Hins vegar þykir ekki líklegt að foreldrarnir fái Mariu til sín þó svo að hún verði send til Búlgaríu heldur verði henni komið í fóstur. 

Eins og er þá er María í umsjón samtakanna Smile of the Child í Aþenu. 

Katia er systir Mariu og dóttir hjónanna Atanas og Sacha …
Katia er systir Mariu og dóttir hjónanna Atanas og Sacha Roussev AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert