Fimm í haldi vegna árásar

-

Lögreglan í Keníu er með fimm manns í haldi vegna árásarinnar í Westgate verslunarmiðstöðinni í Naíróbí í síðasta mánuði.

AFP fréttastofan hefur eftir yfirmanni í lögreglunni að von sé á að fimmmenningarnir verði ákærðir fljótlega. Að minnsta kosti 67 létust í árásinni en sómalísku hryðjuverkasamtökin Shebab hafa lýst yfir ábyrgð á tilræðinu.

Ndegwa Muhoro, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar í Naíróbí, segir að verið sé að fara yfir símaskilaboð dagana fyrir árásina þann 21. september. Stefnt hafi verið að því að leiða fólkið fyrir dómara í gær en því hafi verið frestað þar sem ekki var búið að fara yfir sms skilaboð sem fóru þeirra á milli þann 17. september sl.

Svo virðist sem árásarmennirnir hafi verið fjórir talsins og þeir hafi allir látist í umsátri lögreglu. Meðal annars var hringt símtal til Noregs á meðan árásinni stóð. Norskur ríkisborgari, af sómalískum uppruna, er grunaður um að hafa verið einn árásarmannanna. Hann heitir Hassan Abdi Dhuhulow og er 23 ára að aldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert