Hjón í Washington voru í gær dæmd í áratuga fangelsi fyrir að svelta og berja ættleidda dóttur sína. Parið þvingaði stúlkuna til að vera úti í garði en þar lést hún úr ofkælingu. Stúlkan var frá Eþíópíu en hjónin höfðu ættleitt tvö börn þaðan.
Larry og Carri Williams voru í byrjun september dæmd fyrir að drepa dóttur sína. Konan var dæmd fyrir að myrða stúlkuna með misþyrmingum, segir í frétt AP-fréttastofunnar um málið.
Hana Williams fannst látin 12. maí árið 2011 í bakgarði við heimili fjölskyldunnar skammt frá Seattle. Við krufningu kom í ljós að hún hafði ofkælst og hafði verið vannærð.
Carri Williams fékk í gær 37 ára fangelsisdóm fyrir morðið. Eiginmaður hennar fékk tæplega 28 ára fangelsi fyrir sinn þátt í dauða stúlkunnar. Þau voru einnig dæmd fyrir að misþyrma dreng sem þau höfðu einnig ættleitt frá Eþíópíu.
Verjendur hjónanna sögðu m.a. við meðferð málsins fyrir dómstólum að „umdeildar uppeldisaðferðir“ væru ekki endilega glæpsamlegar.
Það var rigning nóttina sem Hana dó. Móðir hennar hringdi í neyðarlínu og sagði að Hana andaði ekki. Hún sagði að stúlkan hefði neitað að koma inn í húsið. Hana fannst svo í garðinum með andlitið í grasinu og var munnur hennar fullur að leðju.
Talið er að stúlkan hafi verið 13 ára en engin opinber skjöl um fæðingu hennar fundust í Eþíópíu.
Réttarhöldunum var frestað nokkrum sinnum. Lík stúlkunnar var svo grafið upp í janúar og frekari rannsóknir gerðar á beinum hennar og tönnum því sérfræðingar voru ekki sammála um aldur hennar. Það skipti sækjendurna miklu máli að fá úr því skorið hvað stúlkan væri gömul því aðeins er hægt að ákæra fyrir að morð með misþyrmingum (e. homicide by abuse) ef börn eru yngri en sextán ára.
Ættleiddi drengurinn frá Eþíópíu sagði frá því við réttarhöldin að foreldrarnir hefðu refsað börnunum með prikum og beltum. Þá sagði hann að þeir hefðu sprautað á hann vatni úr vatnsslöngu ef hann pissaði í buxurnar.
Eftir að hjónin voru handtekinn var drengurinn sem og sex önnur börn fólksins sett í umsjón barnaverndaryfirvalda eða ættingja.