Tveir af þekktustu sakborningunum í hlerunarmálinu svonefnda í Bretlandi, Rebekah Brooks og Andy Coulson, áttu í sex ára ástarsambandi. Þetta kom fram í máli saksóknarans Andrew Edis við réttarhaldið í dag. Hann sagði að þau hafi verið elskendur frá árinu 1998 til 2004, en á þeim tíma voru þau einnig vinnufélagar á vikuritinu News of the World.
Brooks er fyrrverandi yfirmaður News International fjölmiðlafyrirtækisins og Coulson er fyrrverandi almannatengill forsætisráðherra Bretlands. Brooks var ákærð í málinu ásamt sjö öðrum, þar á meðal Charlie Brooks, eiginmanni sínum. Málið snýst um ólöglega starfshætti News of the World, meðal annars símhleranir og innbrot í talhólf, auk ásakana um að lögreglumönnum hafi verið mútað.
Áður en David Cameron forsætisráðherra réð Coulson til starfa var hann ritstjóri vikuritsins. Brooks var einnig ritstjóri þess áður en hún var ráðin yfirmaður News International.
Við réttarhaldið í dag sagði Edis að hann hefði frétt af ástarsambandi þeirra þegar bréf frá árinu 2004 komst á yfirborðið. „Af bréfinu er ljóst að í febrúarmánuði árið 2004 höfðu þau átt í ástarsambandi í að minnsta kosti sex ár,“ sagði hann við kviðdóminn.
Hann bætti við: „Brooks og Coulson eru sökuð um samsæri. Fyrsta spurningin sem vaknar þegar fólk er sakað um samsæri er hversu vel þau hafi þekkt hvort annað? Ríkti mikið traust á milli þeirra?“
Gert er ráð fyrir að málið verði rekið fyrir dómi fram að páskum á næsta ári.
Frétt mbl.is: Réttarhöld að hefjast í hlerunarmáli