Hvetur stjórnvöld til að binda enda á ofbeldið

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, hvetur stjórnvöld í Egyptalandi til þess að binda enda á ofbeldið í landinu og til að koma á lýðræði. Kerry kom í dag í óvænta heimsókn til Kaíró en það er hans fyrsta heimsókn til Egyptalands frá því Mohammed Morsi var steypt af stóli.

Kerry hvetur stjórnvöld til þess að framlengja ekki neyðarástandið en því á að ljúka síðar í mánuðinum. Samskipti Bandaríkjanna og Egypta hafa versnað til muna frá því herinn tók völdin í sumar. Hafa Bandaríkin dregið úr fjárhagslegum og hernaðarlegum stuðningi við  Egypta.

Mikil leynd hvíldi yfir ferðalagi Kerrys og var ekki upplýst um komu hans til Kaíró fyrr en vél hans lenti á flugvellinum. Kaíró var fyrsti áfangastaðurinn í níu daga ferðalagi utanríkisráðherrans sem kom fyrir stundu til Sádi-Arabíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert