Franska lögreglan hefur birt teikningu að manni sem hún vill ræða við í tengslum við morð á fjölskyldu við Annecy-vatn í Frakklandi á síðasta ári.
Saad al-Hilli, Iqbal eiginkona hans og móðir hennar voru skotin til bana í skógarlundi í nágrenni Annecy-vatns 5. september í fyrra. Hjólreiðamaður sem átti leið hjá var einnig skotinn til bana.
Tvær ungar dætur hjónanna lifðu árásina. Önnur stúlkan fannst á lífi nokkrum klukkutímum eftir að lögreglan mætti á staðinn, en hún gerði sér ekki strax grein fyrir að lifandi barn væri í bílnum undir líki móður sinnar.
Vitni segja að maður á vélhjóli hefði farið um veginn þar sem bíll fjölskyldunnar fannst. Teikningin sem birt var í dag sýnir mann með hökuskegg og hjálm á höfðinu. Hjálmurinn er af óvenjulegri gerð en hann opnast á hlið. Lögreglan segir að vélhjólamaðurinn hafi því getað opnað hjálminn og talað við aðra manneskju án þess að taka hann af sér. Lögreglan segir að um 8.000 hjálmar af þessari gerð og í þessum lit hafi verið framleiddir í heiminum. Þetta kemur fram í frétt á BBC.
Ýmsar kenningar hafa komið fram í fjölmiðlum um morðin. Ein er sú að morðið tengist deilum innan fjölskyldu al-Hilli um peninga og önnur er að morðinginn hafi verið á eftir hjólreiðamanninum og fjölskyldan hafi orðið vitni að morðinu. Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins.