Boðið að taka við öðrum flokki

Per Sandberg.
Per Sandberg. Ljósmynd/Bård Gudim - Frpmedia

Varaformanni norska Framfaraflokksins, Per Sandberg, hefur að eigin sögn verið boðið að veita öðrum stjórnmálaflokki forystu en hann tilkynnti nýverið að hann ætlaði að hætta sem varaformaður flokksins.

Sandberg hefur sterkar skoðanir á innflytjendamálum og íslam og var í fararbroddi Framfaraflokksins á meðan flokkurinn var í stjórnarandstöðu. Hins vegar hefur hann verið settur til hliðar innan Framfaraflokksins eftir að flokkurinn myndaði nýja ríkisstjórn Noregs á dögunum með Hægriflokknum. Þannig fékk hann ekki úthlutað ráðherraembætti.

Fram kemur á fréttavefnum Thelocal.no að Sandberg hafi lýst því yfir eftir að ljóst var að hann yrði ekki ráðherra að stjórnmálaferli hans væri alls ekki lokið og þeir sem héldu það ættu eftir að verða hissa. Hann hafi hins vegar ekki viljað gefa upp hvaða stjórnmálaflokkur hafi óskað eftir forystu hans.

Þá kemur fram að sá flokkur sem helst komi til greina sé norski Lýðræðisflokkurinn sem gangi lengra en Framfaraflokkurinn í afstöðu sinni til innflytjendamála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert