Egypskur dómstóll hefur frestað réttarhöldum yfir Mohamed Morsi, sem var vikið frá embætti forseta fyrir fjórum mánuðum, þangað til 8. janúar. Morsi er sakaður um að hafa átt hlut að máli í dauða mótmælenda þegar hann var við völd.
Morsi hefur ekki sést opinberlega frá því herinn rak hann frá völdum í júlí. Hann var hins vegar leiddur fyrir dómara í Kaíró í morgun og hafnaði hann ásökunum. Sagðist hann vera forseti lýðveldisins og að réttarhöldin yfir honum væru lögleysa. Sagði hann að draga ætti yfirmenn hersins fyrir dómara fyrir valdaránið.
„Þetta var valdarán hersins. Draga á þá sem stýrði valdaráninu fyrir dómara. Valdarán eru landráð og glæpur,“ sagði Morsi.