„Þetta er allt saman lygi“

Það var rafmagnað andrúmsloft í dómshúsinu í Moskvu í dag þegar listrænn stjórnandi hins virta rússneska balletts, Bolshoi, horfðist í augu við manninn sem er sakaður um að hafa skipulagt sýruárásina sem hann varð fyrir. Stjórnandinn, Sergei Filin hafnaði alfarið þeim ásökunum að hann hefði átt í ástarsambandi við unga ballerínu og til þess megi rekja árásina. 

Filin varð nær blindur í kjölfar árásarinnar sem var gerð fyrir utan heimili hans fyrr á þessu ári. Fyrrverandi sólódansari við Bolshoi-ballettinn, Pavel Dmitrijhenkó er ákærður fyrir að skipuleggja árásina.

Filin harðneitaði því í dag að hafa gert upp á milli ballerína eftir því hvort hann hefði átt í ástarsambandi við þær eða ekki. Þá sagðist hann ekki geta fyrirgefið þeim sem stóðu að árásinni. 

„Ég fyrirgef engum það sem gerðist,“ sagði hann.

Við réttarhöldin í dag var dregið fram í dagsljósið ýmislegt sem gengur á á bak við tjöldin hjá Bolshoi-ballettinum.

Filin mætti í dómshúsið í dökkum jakkafötum og með sólgleraugu. Hann virtist yfirvegaður og gaf vitnisburð sinn þrátt fyrir að læknar hafi ráðlagt honum að forðast streituvaldandi kringumstæður.

Hann neitaði því að hafa átt í útistöðum við Dmitrijenkó. Hann sagðist þó hafa heyrt af því fyrir árásina að dansarinn ætlaði sér að eyðileggja orðsport hans.

Hann sagði Dmitrijenkó tilfinninganæman ungan mann. Hann hafi komist á snoðir um að dansarinn væri að grafa eftir upplýsingum um ástarlíf hans og peningamál.

„Og hvað varðar náin sambönd, ég á yndislega fjölskyldu, þrjú börn. Þær ásakanir að dansarar hafi farið í og úr rúmi mínu móðga mig ekki jafn mikið og þær ballerínum sem sagðar eru hafa átt í sambandi við mig. Þetta er allt saman lygi.“

 Nóttina sem ráðist var á Filin hafði hann verið í félagsskap sólódansarans Olgu Smirnovu sem margir telja eina björtustu von Bolshoi-ballettsins.

 Filin sagði að Smirnova hafi komist áfram á eigin verðleikum. Hann neitaði að hafa átt í ástarsambandi við hana og sagðist koma eins fram við allar ballerínurnar. 

„Eiginkona mín, sem ég hef átt í innilegu ástarsambandi við í tíu ár, dansar ekki eins og Olga Smirnova,“ útskýrði Filin en kona hans heitir Maria Prorvij og er dansari.

Dmitrijenkó er sakaður um að hafa verið ósáttur við stjórnun Filins. Hann hafi viljað fleiri tækifæri fyrir sig og unnustu sína, Anzhelinu Vorontsovu.

Filin er 43 ára og var eitt sinn frægur dansari í Bolshoi-ballettinum. Hann var gerður að listrænum stjórnanda árið 2011.

Sergei Filin.
Sergei Filin. AFP
Pavel Dmitrijenkó sem er sakaður um hafa skipulagt sýruárásina á …
Pavel Dmitrijenkó sem er sakaður um hafa skipulagt sýruárásina á Filin. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka