Stefna verði að sameiningu Evrópu

José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. AFP

David Cameron forsætisráðherra Bretlands og aðrir forystumenn innan Evrópusambandsins verða að sýna sama pólitíska hugrekkið og fólst í framtíðarsýn Winstons Churchill fyrrverandi forsætisráðherra Breta þegar hann hvatti til þess að sett yrði á laggirnar einhvers konar Bandaríki Evrópu.

Þetta er haft eftir José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph. Vísaði hann þar til ræðu sem Churchill flutti árið 1948. Barroso sagði að stefna yrði að sameiningu Evrópu og engan afslátt veita af því. Hann hlakkaði til þess þegar því markmiði yrði endanlega náð.

Hins vegar er haft eftir Martin Callanan, Evrópuþingmanni breska Íhaldsflokksins, að Churchill hafi líka sagt að mælikvarðinn á árangur væri að fara frá einum mistökum til þeirra næstu án þess að missa móðinn. Það ætti vel við um þá sem vildu breyta Evrópusambandinu í sambandsríki og réðu ferðinni innan þess.

Þá er haft eftir Nigel Farage, leiðtoga Breska sjálfstæðisflokksins, að Barroso væri að rífa ummæli Churchills úr samhengi. Hann hafi ekki viljað að Bretland yrði þátttakandi í slíkum evrópskum samruna. Vitnaði hann meðal annars til þeirra orða forsætisráðherrans fyrrverandi að ef Bretar þyrftu að velja á milli Evrópu og hafsins myndu þeir alltaf velja hafið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert