Kanadamenn biðu í röðum í ráðhúsi Toronto-borgar eftir að kaupa dúkku í líki hins litskrúðuga borgarstjóra, Rob Ford. Margir hafa farið fram á að Ford segi af sér vegna ýmissa mála sem upp hafa komið undanfarið sem m.a. tengjast áfengis- og fíkniefnanotkun hans.
Dúkkan hefur skemmtilegt vaggandi höfuð og hafa 300 stykki þegar verið boðin til sölu fyrir um 19 dollara hver. Andvirði sölunnar rennur til góðgerðarmála. Dúkkurnar eru áritaðar af borgarstjóranum.
„Það er gjafabúð í þessum sirkus,“ sagði fasteignasalinn Colby Bayne, sem beið í um klukkustund til að geta keypt dúkkuna.
„Ég er ekki viss um að þetta hafi verið þess virði,“ sagði John Rowland sem var þriðji í röðinni er salan á dúkkunni hófst. Dúkkan hefur fengið nafnið RobbieBobbie.
Rob Ford er undir miklum þrýstingi að segja af sér og leita sér aðstoðar eftir að hafa m.a. viðurkennt að hafa reykt krakk.
En svo virðist sem allt umtalið hafi ekki haft áhrif á vinsældir hans því nú sýna skoðanakannanir að stuðningur við borgarstjórann umdeilda hefur aukist. Borgarstjórnarkosningar eru á næsta ári og ætlar Ford að halda sínu striki og bjóða sig fram.
Margir sem biðu í röðinni í dag segjast ætla að selja dúkkurnar aftur og fá gott verð fyrir þær. Aðrir sögðust ætla að gefa þær í jólagjöf.