Lögreglan í Bangladess skaut gúmmíkúlum og beitti táragasi á starfsmenn í fataiðnaði sem krefjast hærri launa. Talið er að um 40 þúsund verkamenn hafi tekið þátt í mótmælunum í Ashulia iðnaðarhverfinu í úthverfi Daka. Þar eru fjölmargar fataverksmiður sem framleiða fatnað fyrir vestræn vörumerki. Loka þurfti 200 verksmiðjum í morgun vegna mótmælanna.
Starfsfólkið krefst þess að fá laun sín hækkuð þannig að þau nái 100 Bandaríkjadölum, sem svarar til rúmlega 12 þúsund króna. Í síðustu viku var samþykkt að hækka launin í 67 dali, rúmar 8 þúsund krónur á mánuði eftir langar og strangar samningaviðræður milli samtaka atvinnurekanda, stjórnvalda og stéttarfélaga.
Samtök textílframleiðenda eru afar óánægð með launahækkunina sem samið var um og telja launin allt of há. Áður voru lágmarkslaun í slíkum verksmiðjum 38 dalir, sem svarar til 4.700 króna á mánuði. Þrátt fyrir launahækkunina eru launin hvergi jafn lág í heiminum. Fjölmörg vestræn fyrirtæki láta framleiða fyrir sig í Bangladess til þess að fá vöruna á mun lægra verði heldur en ef hún væri framleidd annars staðar í heiminum.
Bangladess er annar stærsti útflytjandi á vefnaðarvöru í heiminum en alls starfa um fjórar milljónir í greininni og eru konur þar í miklum meirihluta. Meðal stórra viðskiptavina eru keðjur eins og Wal-Mart og H&M.