Byssumennirnir sem tóku að minnsta kosti 67 af lífi í hryðjuverkaárásinni á Westgate-verslunarmiðstöðina í Naíróbí, höfuðborg Keníu, í september voru sérþjálfaðir í að fremja sjálfsvígsárás. Þetta kemur fram í yfirlýsingu á vef Shebab-hryðjuverkasamtakanna. Ekkert sé hæft í fréttum um að árásarmennirnir hafi reynt að flýja.
Segir í vefriti Shebab að Julius Karangi, yfirmaður hers Keníu, fari með rangt mál þegar hann segir að þeir hafi reynt að flýja verslunarmiðstöðina þegar umsátrið hófst. Í vefritinu, sem kom út í dag, er sjónum einkum beint að árásinni á Westgate. Ritið er bæði á ensku og svahílí og eru birtar myndir af árásinni með greininni.
„Westgate var ekki árás, þetta voru skilaboð,“ er haft eftir talsmanni Shebab, Ali Mohamed Rage, í tímaritinu. „Hin raunverulegu átök eru handan við hornið.“
Interpol aðstoðar yfirvöld í Keníu við rannsókn málsins en í vefritinu er hvorki greint frá því hversu margir árásarmennirnir voru né heldur hverjir þeir voru. Ekki hafa verið borin kennsl á árásarmennina meðal þeirra sem létust í Westgate.
Fjórir menn sem hafa verið ákærðir fyrir þátt sinn í hryðjuverkunum í Westgate-verslunarmiðstöðinni mættu fyrir dómara í gær.
Mennirnir neita allir sök en þeir eru ákærðir fyrir að hafa stutt hryðjuverkahópinn sem skipulagði árásina sem og að hafa komið ólöglega til Kenía með fölsuðum skilríkjum.