Nadezhda Tolokonnikova, meðlimur pönkhljómsveitarinnar Pussy Riot, hefur verið flutt í fangabúðir í Síberíu, nokkur þúsund kílómetrum frá Moskvu. Þetta hefur talsmaður hins opinbera loks staðfest.
Tolokonnikova afplánar nú tveggja ára fangelsisdóm fyrir þátttöku sína í mótmælum gegn Vladimír Pútín foresta í kirkju í Moskvu. Vinir og ættingjar hennar hafa hvorki séð hana né heyrt frá henni síðan 22. október.
Rússnesk fangelsismálayfirvöld tilkynntu í síðasta mánuði að hún yrði flutt í annað fangelsi í kjölfar hungurverkfalls sem hún fór í. Hafði hún óskað eftir flutningi milli fangelsa en afplánun hennar á að ljúka í mars.
Hún hafði kvartað opinberlega um þrælkun í fangelsinu og að hafa fengið morðhótanir frá yfirmönnum fangelsisins í Mordovíu þar sem hún dvaldi.
Í fréttatilkynningu sem gefin var út í dag er í fyrsta sinn staðfest að hún hafi verið flutt í fangelsi í Síberíu. Þar kemur fram að flutningurinn sé vegna þess að hin 24 ára gamla Tolokonnikova er með lögheimili í borginni Norilsk, skammt frá fangabúðunum. Hins vegar býr eiginmaður hennar ásamt dóttur þeirra í Moskvu.
Í frétt AFP-fréttastofunnar segir að flutningurinn í afskekktara fangelsi virðist því fyrst og fremst vera refsing. Fangelsið er í um 3.000 kílómetra fjarlægð frá Moskvu.
Samkvæmt rússneskum lögum þurfa fangelsismálayfirvöld ekki að tilkynna ættingjum um flutning fanga fyrr en 10 dögum eftir að flutningarnir eiga sér stað.