Handtaka dreifingaraðila barnakláms í Toronto í Kanada fyrir tveimur árum hefur leitt til handtöku 341 annarra auk þess sem 386 börnum hefur verið bjargað úr aðstæðum þar sem kynferðisleg misnotkun átti sér stað.
Á meðal handtekinna voru sex starfsmenn lögregluyfirvalda, níu trúarleiðtogar, 40 kennarar, þrír fósturforeldrar, 32 aðilar sem störfuðu sem sjálfboðaliðar í kringum börn, níu læknar og nokkrir hjúkrunarfræðingar. Frá þessu var greint á blaðamannafundi lögreglunnar í Toronto fyrr í dag.
Það var í október 2010 sem leynilögreglumenn komust í sambandi við dreifingaraðila barnakláms. Maðurinn hélt úti vefsíðu þar sem viðskiptavinir víðsvegar um heiminn gátu ýmist horft á barnaklám úr gagnabanka vefsíðunnar á netinu, eða fengið myndina heimsenda. Þá borgaði hann einnig fólki fyrir að taka myndband af níðingsverkum sínum og setja á síðuna.
Talið er maðurinn hafi hagnast um fjórar milljónir kanadískra dollara, eða um 450 milljónir íslenskra króna á nokkrum árum af starfseminni. Þá gerði lögreglan þúsundir mynda og myndbanda upptæk hjá honum.
Lögreglan rakti slóð vefsíðunnar og hafði þannig uppi á viðskiptavinum hennar. Málið var unnið í samstarfi við lögregluyfirvöld í Bandaríkjunum, Svíþjóð, Ástralíu, Suður-Afríku, Hong Kong og á Spáni. Á kortinu sem sjá má í myndbandinu teygði rannsóknin anga sína meðal annars til Íslands.
Á meðal þeirra sem handteknir voru var hafnaboltaþjálfari ungra drengja í Washington sem hafði framleitt rúmlega 500 barnaklámsmyndbönd.