Ber þýskt fyrirtæki ábyrgð á PIP

AFP

Franskur dómstóll mun í dag úrskurða um hvort þýska vottunarfyrirtækið TUV beri ábyrgð á því að brjóstapúðar frá franska fyrirtækinu Poly Implant Prothese (PIP) voru notaðir um allan heim.

TUV Rheinland veitti PIP vottun um að brjóstapúðar fyrirtækisins stæðust evrópskar kröfur. Í ljós kom að PIP notaði iðnaðarsílikon í púðana og að púðarnir leka mun oftar heldur en aðrir brjóstapúðar.

Sex dreifingarfyrirtæki PIP í Búlgaríu, Brasilíu, Ítalíu, Sýrlandi, Mexíkó og Rúmeníu krefjast þess að TUV greiði þeim alls 28 milljónir evra í skaðabætur. Eins hafa yfir 1.600 konur sem fengu PIP púða höfðað skaðabótamál. Hver þeirra fer fram á 16 þúsund evrur í bætur sem þýðir að alls er TUV krafið um 53 milljónir evra, 8,8 milljarða íslenskra króna.

Talið er að um 300 þúsund konur í 65 löndum hafi fengið gallaða brjóstapúða frá PIP og 16 þúsund þeirra hafi látið fjarlægja þá eftir að upp komst um að iðnaðarsílikon hafi verið notað við gerð þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert