Villtar nætur með vændiskonum

Rob Ford er borgarstjóri Toronto í Kanada. Mynd fengin af …
Rob Ford er borgarstjóri Toronto í Kanada. Mynd fengin af heimasíðu borgaryfirvalda í Toronto.

Rob Ford, borgarstjóri Toronto í Kanada, er enn á ný í vondum málum. Hann er nú sagður hafa neytt kókaíns og skemmt sér með vændiskonum. Þetta kemur fram í gögnum sem dómari í Ontario gerði opinber í dag í tengslum við lögreglurannsókn á málum borgarstjórans. Ford neitar staðfastlega að stíga til hliðar.

Borgarráð Toronto samþykkti í dag að fara fram á það að Ford hætti sem borgarstjóri. Sú ákvörðun ráðsins er ekki bindandi.

Borgarráðið kom saman til fundar í dag í fyrsta sinn eftir að Ford játaði í síðustu viku að hafa reykt krakk. Ford kom fyrir ráðið og sagði rétt að hann hefði keypt ólögleg fíkniefni á síðustu tveimur árum. En hann neitaði því staðfastlega að vera fíkill.

Í gögnunum sem birt voru í dag og sagt er m.a. frá í New York Times, kemur fram að Ford hafi tekið hið ávanabindandi verkjalyf oxycontin, lagt lag sitt við vændiskonur, ekið undir áhrifum og látið starfsfólk sitt kaupa vín handa sér. Margt fleira kemur þar fram.

Skjölin telja um 500 blaðsíður og eru samansafn ásakana á hendur honum. Engar þeirra hafa verið sannaðar fyrir dómstólum enn sem komið er. Gögnin voru hins vegar notuð til að fá leitarheimild í rannsókn lögreglunnar á meintum fíkniefnasala, Alessandro Lisi.

Í gögnunum draga Earl Provost, starfsmannastjóri Fords, og fyrrverandi samstarfsmenn hans, þeir Brooks Barnett og Isaac Ransom, upp mjög svo lifandi mynd af kvöldi einu árið 2012, á degi heilags Patreks.

Starfsmennirnir þrír voru að skemmta sér með Ford. Kvöldið hófst með gleðskap í ráðhúsinu. Er Ransom kom sá hann smávaxna, ljóshærða og bláeygða konu á skrifstofunni. Hann telur að hún hafi verið vændiskona og heita Alana.

Ransom sagði lögreglunni að það hafi lengi verið orðrómur á kreiki um að Ford hefði „notað fylgdarkonur og vændiskonur“ og að Alana hafi áður sést í hans félagsskap. Þetta kvöld hafi  hún haft hass og marijúana meðferðis. Hann segir að Ford hafi viljað neyta efnanna en að starfsfólk hans hefði komið í veg fyrir það.

Ransom segir að í partíinu hafi Ford klárað flösku af vodka áður en hann tók leigubíl á barinn Bier Markt og hélt þar áfram að drekka í einkaherbergi.

Sá sem sá um veitingar í veislunni á Bier Market fór einnig í skýrslutöku til lögreglunnar og sagði frá því að hann hafi orðið vitni að því er Ford og ein kona tóku einhver efni í nefið í einkaherberginu. Hann segir að Ford hafi bannað sér að segja frá nokkru sem hann sá þetta kvöld.

Annað vitni sagðist hafa séð Ford taka Oxycontin um kvöldið.

Að þessu loknu færðist gleðskapurinn enn á ný í ráðhúsið og þar er Ford sagður hafa brostið í óstöðvandi grát. Fyrir utan allt þetta er hann sagður hafa uppnefnt leigubílstjórann og veitingamanninn sem og konu sem vann í ráðhúsinu sem öryggisvörður.

Að lokum reyndu samstarfsfélagar Ford að koma honum í leigubíl og senda hann heim. Hann hlýddi því ekki heldur fór í sinn eigin bíl og ók á brott. Ók hann næstum því utan í leigubílinn fyrir utan ráðhúsið.

Ransom segir að Ford hafi síðar sagt að hann myndi ekkert eftir þessu kvöldi.

Í skjölunum kemur einnig fram að Ford hafi misnotað starfsfólk sitt og látið það kaupa fyrir sig ýmislegt til heimilisins og einkanota.

Á borgarráðsfundinum í dag neitaði Ford að hætta sem borgarstjóri. Þá sagðist hann heldur ekki ætla að taka sér leyfi frá störfum.

Myndband náðist af Ford taka æðiskast.
Myndband náðist af Ford taka æðiskast. AFP
Tom Ford stendur sjálfur fyrir sölu á dúkku af sér. …
Tom Ford stendur sjálfur fyrir sölu á dúkku af sér. Andvirðið rennur til góðgerðarmála. AFP
Rob Ford.
Rob Ford. nymag.com
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert