„Hjálpið okkur. Við þurfum mat“ stendur stórum stöfum rétt við afskekkt þorp á Filippseyjum. Þorpið er eitt þeirra sem hefur orðið skelfilega úti í fellibylnum Haiyan.
Orðsendingin fór ekki fram hjá flugmönnum þyrlu bandaríska hersins sem fluttu neyðarbirgðir til svæðisins í dag. Hún sýnir hversu örvæntingarfullt fólk er orðið nú tíu dögum eftir að fellibylurinn gekk yfir og lagði heilu bæina og þorpin í rúst.
Um leið og þyrlan lenti og dyr hennar opnuðust þustu þorpsbúar að henni og byrjuðu að ná sér í poka af hrísgrjónum áður en búið var að afferma vélina.
„Þetta er fyrsti maturinn sem við höfum fengið,“ hrópaði kona á meðan hjálparstarfsmennirnir reyndu að ýta fólkinu frá vélinni.
Loks tókst að koma öllum grjónunum úr þyrlunni sem flaug svo á brott. Þorpsbúar voru eftir á jörðu niðri en þeir höfðu vonast eftir fleiri neyðarbirgðum en hrísgrjónum.
„Þeir sem búa á afskekktum svæðum eru örvæntingarfyllstir,“ segir Matthew Gensler, hershöfðingi sem er meðal þeirra sem stjórna aðgerðum á svæðinu. „Því lengra sem við fljúgum, þeim mun verra er ástandið.“
Þyrlan er ein af mörgum sem flýgur nú viðstöðulaust með birgðir úr herskipinu George Wahsington til hamfarasvæðanna.
Haiyan gekk á land á Filippseyjum 8. nóvember. Aldrei áður hefur vindhraði mælst jafnmikill.
Staðfest er að 3.976 létu lífið og enn er 1.598 saknað. Sameinuðu þjóðirnar telja að um 4 milljónir manna hafi misst heimili sín. Aðeins um 350 þúsund hafa fengið skjól í neyðarskýlum.
Á hinni smáu eyju Homonhon voru íbúarnir rólegri. Þeir biðu þolinmóðir eftir að þyrlan lenti og að vatnsbirgðum var komið frá borði.
Flugmenn þyrlunnar sáu hvernig eyjan var í raun rústir einar. Akrar voru ónýtur og hús sömuleiðis.
Þyrluflugmenn bandaríska hersins hafa ekki aðeins flutt neyðarbirgðir til svæðanna heldur einnig flutt um 5.000 manns á örugg svæði.
Margir hafa gagnrýnt að hjálpin hafi borist seint. Hún er hins vegar nú í fullum gangi víðsvegar um landið, m.a. í borginni Tacloban. Þar er enn rafmagnslaust en búið er að koma upp dreifingarstöðvum með matvæli og sömuleiðis er borgabúum útvegað hreint drykkjarvatn. Hópar hjúkrunarfólks fer um svæðið og sinnir bráðveikum og slösuðum.
Sumar bensínstöðvarnar hafa verið opnaðar á nýjan leik.
En ástandið í landinu er enn mjög alvarlegt. Björgunarmenn sem leita í rústum húsa eru enn að finna lík, m.a. í Tacloban.
Sameinuðu þjóðirnar telja að um 2,5 milljónir manna þarfnist mataraðstoðar og segir að tryggja verði fólkinu fræ og fleira til að hefja ræktun á nýjan leik en stórir akrar, m.a. hrísgrjónaakrar, eru ónýtir.
Forseti Filippseyja, Benigno Aquino, hefur verið gagnrýndur fyrir að óska ekki fyrr eftir hjálp. Hann fór um helgina um þau svæði sem verst urðu úti og sagðist ætla að halda til þar til að fylgjast með aðgerðum.
Blaðamaður AFP-fréttastofunnar fór um borgina Tacloban og sá m.a. mann vera að reyna að endurbyggja hús sitt. Hann fann þrjú lík er hann safnaði timbri til verksins. Tvö þeirra voru af börnum.
„Getur þú beðið yfirvöld að koma og taka líkin?“ sagði hann við blaðamanninn.
Í þorpinu Manlurip rétt fyrir utan Tacloban rifjar Flordeliza Arpon, 32 ára, upp hvernig hún elsta barn hennar varð viðskila við aðra meðlimi fjölskyldunnar. Hús þeirra eyðilagðist í fellibylnum. Fjölskyldan var ekki sameinuð fyrr en fjórum dögum síðar.
„Við misstum allt. En við höfum enn hvert annað.“