Í lífshættu eftir skotárás

Lögreglan er með mikinn viðbúnað við alla helstu fjölmiða Frakklands í París eftir að maður ruddist inn á ritstjórn Liberation í morgun og skaut aðstoðarmann ljósmyndara. Fórnarlambið er í lífshættu.

Árásarmaðurinn virðist hafa gengið inn á ritstjórnina og skotið fórnarlambið, sem er 27 ára, í brjóstkassa og maga með haglabyssu. Árásarmaðurinn flúði af vettvangi og er leitað en árásin var gerð klukkan 10:15 að frönskum tíma, 9:15 að íslenskum tíma.

Árásin á ritstjórn Liberation er gerð einungis þremur dögum eftir að maður kom inn í höfuðstöðvar fréttastöðvarinnar BFMTV í París og skaut úr haglabyssu inni á fréttastofunni án þess að skjóta á fólk. Árásarmaðurinn varaði hins vegar við því að næst yrði því öðruvísi farið. Lögregla rannsakar nú hvort tengsl séu á milli málanna.

Nú skömmu fyrir hádegi heyrðist síðan skothvellir í La Défence hverfinu fyrir utan höfuðstöðvar Sociéte Genérale bankans.

Nicolas Demorand, framkvæmdastjóri Liberation, segir að starfsfólk blaðsins sé í áfalli enda hafi maðurinn gengið inn í anddyri hússins og hafið skothríð. „Þegar einhver kemur inn á ritstjórn dagblaðs í lýðræðisríki vopnaður haglabyssu þá er það grafalvarlegt mál. Skiptir þar engu andlegt ástand viðkomandi,“ segir hann í viðtali við AFP fréttastofuna.

Maðurinn sem særðist er aðstoðarmaður ljósmyndara sem vinnu fyrir Next, fylgirit Liberation.

Blaðamaður Liberation, Anastasia Vecrin, segir að hún hafi verið að koma til vinnu þegar hún sér mann liggjandi á gólfinu þar sem hann heldur um maginn og það hafi verið blóð út um allt.

Innanríkisráðherra, Manuel Valls, segir að allt verði gert til þess að hafa uppi á árásarmanninum.

Franskir fjölmiðlar segja að maður hafi verið tekinn í gíslingu í nágrenni Champs-Elysées en ekki er vitað hvort mannræninginn sé sá sami og skaut manninn á Liberation eða skaut fyrir utan höfuðstöðvar bankans.

Skaut ljósmyndara á ritstjórn

Við höfuðstöðvar Liberation
Við höfuðstöðvar Liberation AFP
AFP
Nicolas Demorand framkvæmdastjóri Liberation og Manuel Valls innanríkisráðherra.
Nicolas Demorand framkvæmdastjóri Liberation og Manuel Valls innanríkisráðherra. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert