Nær valdalaus borgarstjóri

Borgarstjórn Toronto í Kanada hefur samþykkt að svipta Rob Ford borgarstjóra nær öllum völdum sínum. Hann er rúinn trausti eftir að upplýst var um vímuefnaneyslu hans, en neitar að segja af sér.

Samþykkt borgarstjórnar felur m.a. í sér að Ford hefur ekki lengur neina aðkomu að fjármálum borgarsjóðs. Varaborgarstjóri mun sinna þessum störfum.

Ford lætur hins vegar ekki deiga síga og sagði í dag að hann myndi halda áfram að berjast fyrir rétti sínum til að stýra borginni. Hann sagði borgarstjórnina um valdarán.

Þegar fjölmiðlar birtu fyrst fréttir af því að til væri myndskeið sem sýndi Ford reykja krakk neitaði hann því harðlega. Hann viðurkenndi síðar að hafa reykt krakk, en sagði af og frá að hann væri háður fíkniefnum. Frá því þetta mál kom upp hafa fjölmiðlar birt fleiri sögur af framkomu hans, m.a. um áfengisneyslu og framkomu við starfsfólk borgarinnar. Þá hafa viðbrögð Fords, eftir að málið kom upp, ekki bætt stöðu hans.

Ford er hins vegar ekki á því að gefast upp og sagði í dag eftir að samþykkt borgarstjórnar lá fyrir: „Hver einasti ykkar hefur syndgað.“

Fyrr um daginn rakst Ford utan í Pam McConnell borgarfulltrúa þannig að hún féll í gólfið. Hún sást síðar bera ísmola upp að vörunum.

Skoðanakannanir sýna að um 3/4 borgarbúa vilja að Ford segi af sér. Viðbrögð hans við þessum tölum er að hann sagðist vona að sá dagur kæmi að hann yrði forsætisráðherra Kanada.

Ford á þó enn stuðning í borginni og hafa stuðningsmenn hann látið til sín taka. Ford mætti t.d. um helgina á iþróttaleik hjá sínu liði og var vel fagnað.

Rob Ford borgarstjóri er ekki á því að gefast upp.
Rob Ford borgarstjóri er ekki á því að gefast upp. GEOFF ROBINS
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert